Orkídea, í samvinnu við Búnaðarsamband Suðurlands og byggðaþróunarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, héldu í gær góðan fund í Reykholti með kúabændum í uppsveitunum um lífgas- og áburðarvinnslu í nálægð við Reykholt í Bláskógabyggð. Um 30 bændur sóttu fundinn og sýndu efninu mikinn áhuga og var almenn þátttaka í umræðum eftir kynningar Orkídeu.
Helga, rannsóknar- og þróunarstjóri Orkídeu, kynnti ferlið með lífgas- og áburðarvinnslu, sem felst í því að gerja mykju og úrgang frá landbúnaði og garðyrkju. Afurðir gerjunar eru annars vegar lífgas, blanda af metani og koltvísýringi, sem hægt er að brenna í ljósavél/rafstöð og fá þannig hita og rafmagn og hins vegar melta, lífrænn áburður sem hefur ýmsa kosti fram yfir ómeðhöndlaðan búfjáráburð eins og mykju.
Sveinn, framkvæmdastjóri Orkídeu, kynnti síðan þrjár sviðsmyndir af rekstri lífgas- og áburðarvers í uppsveitunum. Ein sviðsmyndin gerir ráð fyrir fullkomnu lífgasveri með gashreinsun á metani og koltvísýringi. NIRAS, ráðgjafafyrirtæki í Danmörku, kannaði rekstrargrundvöll slíks vers og var niðurstaðan sú að þannig ver gæti greitt rekstrarkostnað en ekki fjármagnskostnað. Þessi athugun var styrkt af þróunarsjóði garðyrkjunnar sem garðyrkjubændur í Reykholti sóttu um ásamt Orkídeu. Koltvísýringurinn sem kemur úr lífgasverinu er afar mikilvægur fyrir ylræktina í Reykholti og á Flúðum.
Sveinn kynnti síðan annað líkan, byggt að einhverju leyti á sviðsmyndinni sem NIRAS athugaði, sem gerir ráð fyrir að lífgasið sé brennt í rafstöð og gefur þar með hreinan koltvísýring fyrir garðyrkjuna auk hita og rafmagns. Samkvæmt útreikningum Orkídeu er þetta vænlegasta sviðsmyndin þar sem markaður fyrir koltvísýring er þekktur en markaður fyrir hreint metan er óviss þar sem innviði skortir. Áfram verður unnið með þá sviðsmynd.
Einnig var kynnt líkan um staðbundna lífgasvinnslu á einstökum býlum sem gæti hentað býlum á köldum svæðum þar sem lífgasið nýtist, með bruna, til hita- og raforkuframleiðslu. Sú vinnsla væri mun minni í sniðum en hægt er að fá tilbúin lífgasver erlendis sem henta miðlungs- eða stærri kúabúum, lágmarkstærð bús miðast þá við 60-70 gripi.
Sem fyrr segir var fundurinn gagnlegur og fundarmenn skrifuðu sig á póstlista til að fá frekari fréttir af framgangi verkefnisins. Ef þú hefur áhuga á að vera með á þeim lista þá sendu okkur endilega línu á tölvupósti, sveinn@orkidea.is
Hér að neðan eru svipmyndir frá fundinum (Myndir: Orkídea/Magnús Yngvi)