6. mars 2025

Lífgas ehf – rekstrarfélag um lífgas- og áburðarvinnslu í Uppsveitum stofnað

Stofnendur Lífgass ehf, f.v. Helgi Jakobsson (Gufuhlíð), Axel Sæland (Espiflöt), Ásta Stefánsdóttir (sveitarstjóri Bláskógabyggðar), Knútur Rafn Ármann (Friðheimar) og Helgi Kjartansson (oddviti Bláskógabyggðar)

Síðastliðinn þriðjudag var gengið frá stofnun rekstrarfélags um lífgas- og áburðarvinnslu í Bláskógabyggð. Félagið, Lífgas ehf, hyggst reisa lífgas- og áburðarver í Uppsveitum Árnessýslu og nýta til þess mykju frá kúabúum og afskurð frá garðyrkjustöðvum í uppsveitunum. Ætlunin er að fá um 30 kúabændur og sem flestar garðyrkjustöðvar í Reykholti, Flúðum og nágrenni til liðs við félagið. Afurðir lífgas- og áburðarversins verða lífkoltvísýringur, lífrænn áburður, rafmagn og hiti. Verið mun safna um 50 þ. tonnum af mykju og garðyrkjuúrgangi, hann gerjaður og við það fæst auðleystari lífrænn áburður sem skilað verður aftur til kúabænda auk koltvísýrings til garðyrkjustöðvanna. Hiti og rafmagn verða nýtt í þágu samfélaga uppsveitanna.

Stofnendur félagsins eru Sveitarfélagið Bláskógabyggð og garðyrkjustöðvarnar Friðheimar, Gufuhlíð og Espiflöt en ætlunin er að fá fleiri bændur í uppsveitunum með í félagið. Hugmyndafræðin á bak við lífgasver var kynnt á fjölmennum bændafundi í Reykholti í október sl. og varð strax vart við mikinn áhuga bænda á fyrirhugaðri starfsemi. Á næstu vikum verður starfsemi félagsins kynnt betur meðal kúa- og garðyrkjubænda og gengið frá lokaútgáfu viðskiptaáætlunar sem Orkídea hefur unnið m.a. með aðstoð danskra sérfræðinga  og með styrk frá Garðyrkjudeild Bændasamtakanna. Til að fjármagna lífgasverið er stefnt  að öflun styrkja úr nýjum Orku- og loftslagssjóði auk lánsfjármögnunar. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir um 900 mkr fjárfestingu í verinu. Það mun spara árlega um 16.000 tonn af losun kolefnisígilda í formi minni metanlosunar.  Orkídea stefnir að kynningum á hugmyndafræði lífgasvera á öðrum landbúnaðarsvæðum Suðurlands í framtíðinni. Lífgasverið í Bláskógabyggð tengist ESB verkefninu Value4Farm sem Orkídea tekur þátt í.

Stofnun rekstrarfélags á Suðurlandi um lífgasframleiðslu er mikill áfangasigur á þeirri vegferð að auka fyrirsjáanleika í rekstri og hagkvæmni í landbúnaði og ylrækt og jafnframt að mæta auknum kröfum um hringrás og skilvirkari og umhverfisvænni auðlindanýtingu.

Til hamingju uppsveitafólk!

 

Fleiri fréttir

Allar fréttir
6. mars 2025
Lífgas ehf – rekstrarfélag um lífgas- og áburðarvinnslu í Uppsveitum stofnað
Lesa meira
3. mars 2025
Staða garðyrkjunnar – grein þingmanns í Bændablaðinu
Lesa meira
19. febrúar 2025
Vinnudagar Orkídeu og samstarfsverkefna á Suðurlandi
Lesa meira
3. febrúar 2025
Rúmenar nýta lághitasvæði með varmadælum til húshitunar
Lesa meira