Verkefnið Terraforming LIFE hefur hlotið styrk upp á tæpan milljarð íslenskra króna frá Umhverfis- og loftlagsáætlun Evrópusambandsins, LIFE og er það fyrsti verkefnisstyrkur LIFE til íslensks verkefnis sem er undirritaður og samþykktur af ESB. Um er að ræða samstarfsverkefni Landeldis hf., Bændasamtakanna, Orkídeu, Ölfus Cluster og SMJ frá Færeyjum með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi.
Verkefnið miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði. Það eflir hringrásarhagkerfi innlendrar matvælaframleiðslu, samhliða því að minnka kolefnisspor og stuðla að umtalsvert jákvæðari umhverfisáhrifum bæði í landbúnaði og fiskeldi.
Rúnar Þór Þórarinsson, stjórnandi verkefnisins og fulltrúi Landeldis, undirstrikar mikilvægi hins víðtæka samstarfs: „Í þessu felast gríðarlega spennandi tækifæri til nýtingar lífrænna hliðarstrauma frá fiskeldi á landi. Afurðirnar verða til hagsbóta fyrir íslenska hringrásarkerfið og bæta umhverfisáhrif fiskeldis með því að framleiða ekki aðeins áburð til landbúnaðarframleiðslu heldur líka kolefnishlutlaust eldsneyti, raforku og hita.“
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna telur verkefnið styðja áfallaþol og sjálfstæði íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu. „Ein stærsta áskorun okkar bænda síðustu ár hefur verið gríðarleg hækkun á áburðarverði. Þetta verkefni mun draga úr áhrifum hennar með því að auka framboð á innlendum áburði. Bændur eru spenntir fyrir verkefninu enda vilja þeir vera í forystu við þróun lausna við loftslagsvandanum en verkefnið minnkar vistspor landbúnaðarins.“
“Verkefnið felur í sér mikla þekkingar- og tækniþróun fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins sem gefur okkur öllum mjög spennandi möguleika og tækifæri til nýsköpunar og atvinnuþróunar á Suðurlandi,” segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu samstarfsverkefnis.
“Verkefnið fellur vel að áherslum sveitarfélagsins Ölfus er kemur að atvinnuuppbyggingu á svæðinu og skipulagi Grænna Iðngarða. Þar er áherslan á hringrásarhagkerfið og að allir straumar séu endurnýttir eins og kostur er,” segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfus.
Verkefnið hefst 1. júní 2023 og er til fjögurra ára og því ljóst að mikil uppbygging verður í Ölfusi.
Nánari upplýsingar veita
Fyrir Landeldi: Rúnar Þór Þórarinsson 849-8871
Fyrir Bændasamtökin: Gunnar Þorgeirsson 892-7309
Fyrir Orkídeu: Sveinn Aðalsteinsson 698-9644
Fyrir Ölfus Cluster: Páll Marvin Jónsson 694-1006