25. nóvember 2024

Heimsókn í Mýrdalshrepp

Heimsókn til Mýrdalshrepps, f.v. Sveinn, Helga, Magnús Yngvi, Magnús Örn, Drífa og Einar Freyr sveitarstjóri.

Starfsfólk Orkídeu hitti sveitarstjórnarfólk í Mýrdalshreppi á dögunum. Á fundinum voru Einar Freyr Elínarson (sveitarstjóri Mýrdalshrepps, geitaræktandi og í ferðaþjónustu), Drífa Bjarnadóttir (fiskeldisbóndi og fulltrúi í Skipulags- og Umhverfisráði) og Magnús Örn Sigurjónsson (korn- og kúabóndi á Eystri-Pétursey, í Skipulags- og Umhverfisráði)

Við kynntum áherslur og markmið Orkídeu ásamt helstu áskorunum nýsköpunarumhverfisins á Suðurlandi, sögðum m.a. frá hringrásargörðum og ESB verkefnum sem Orkídea tekur þátt í sem eru með áherslu á lífgas og áburðarframleiðslu þ.e. Terraforming LIFE og Value4Farm. Við nefndum einnig segulhitaraverkefnið – sem nýtir vatn eða vind til að breyta hreyfiorku beint í varmaorku en Vík og nágrenni eru snauð af vinnanlegum jarðhita til húshitunar.

Drífa ræktar bleikju og selur hausaðan og slægðan fisk til Klausturbleikju til frekari vinnslu.

Mýrdalshreppur hefur gengið í gegnum stórfelldar breytingar á síðustu árum. Landbúnaður hefur verið á undanhaldi, en ferðaþjónusta komin í staðinn og talsvert er til af ónýttu ræktarlandi þar sem búum hefur fækkað í sveitarfélaginu. Vík hefur stækkað mjög hratt, en fjölgunin byggist á fólki af erlendan ríkisborgararétt. Núna er samsetning íbúa sveitarfélagsins þannig að 70% erlendir ríkisborgarar og 30% íslenskir. Dregið hefur úr veltu á erlendu starfsfólki, meira af fólki með heilsársstörf og fyrirtækin vilja frekar ráða fólk í heilsársstörf.

Við áttum spjall um lífgas- og áburðarvinnslu, m.a. ræddum við hvort lúpína gæti verið hráefni í lífgas en rannsaka þyrfti betur hvort hún hentar sem hráefni. Lúpína er algeng á sunnlenskum söndum, eins og kunnugt er. Talsvert magn af lífrænum heimilisúrgangi er frá hótelum og gistiheimilum á Vík sem gæti einnig nýst í lífgas- áburðarvinnslu.

Vík er eingöngu með rafkyndingu bæði fyrir hótel og heimili, og er rafmagnskostnaður íbúa og fyrirtækja í sveitarfélagi mjög hár. Afhemdingaröryggi rafmagns er lítið og fer versnandi, að mati heimamanna.

Jarðefnaflutningur frá Hafursey á færiböndum til sjávar er skv. sveitarstjórnarfólkinu ekki inni í myndinni að svo stöddu þar sem hugmyndin felur í sér of mikið rask og lítinn sem engan sjáanlegan ávinning fyrir sveitarfélagið.

Takk fyrir gott spjall og góðar mótttökur, Einar Freyr, Drífa og Magnús Örn!

 

Fleiri fréttir

Allar fréttir
10. janúar 2025
Samstarf við Matís endurnýjað
Lesa meira
20. desember 2024
Bændablaðið með frétt og fréttaskýringu um lífgas- og áburðarver
Lesa meira
12. desember 2024
Starf Orkídeu framlengt um 3 ár
Lesa meira
26. nóvember 2024
Kúabúið í Flatey á Mýrum heimsótt
Lesa meira