7. júní 2024

17,7 mkr. styrkur í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi

Matvælasjóður (MVS) úthlutaði nýlega 17,7 mkr styrk í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi. Í þessu verkefni sameina sterkir aðilar krafta sína.

Í fyrsta lagi má nefna Frostþurrkun ehf sem er fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á frostþurrkun á iðnaðarskala. Í öðru lagi FirstWater ehf sem er fyrsta íslenska fyrirtækið sem stundar landeldi á laxi á stórum skala. Þessi fyrirtæki eru bæði að staðsett í Þorlákshöfn og eru að stíga tímamótaskref í íslenskri matvælaframleiðslu. Þessi nýju fyrirtæki ásamt sterkum rannsóknaraðilum standa að verkefninu. Annars vegar Matís sem hefur mikla reynslu af þróun á framleiðsluaðferðum til að hámarka gæði og nýtingu úr hliðarafurðum sem falla til í matvælavinnslu og hins vegar Orkídea sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi og hefur mikla reynslu af stjórnun nýsköpunarverkefna og einnig tekið þátt í ýmsum vöruþróunarverkefnum í samstarfi við frumkvöðla á Suðurlandi.

Í Þorlákshöfn eru að skapast einstakar aðstæður til að framleiða hágæða vörur úr hliðarstraumum Landeldisframleiðslu en þar eru nú að byggjast upp fjöldi landeldisfyrirtækja sem ætla sér að framleiða allt að 100 þúsund tonn af landeldislöxum á ári. Við framleiðslu og fiskvinnslu á 100 þúsund tonnum af landeldislaxi mun óhjákvæmilega skapast verulegt magn hliðarstrauma sem hingað til hafa haft takmarkaða notkunarmöguleika. Sé gert ráð fyrir að 1% massanns verði í formi hliðarhráefna má gera ráð fyrir að 10.000 tonn/ár falli til af hráefni, t.d. lifur, milta, hjörtu og hrogn, sem hægt er að nýta til manneldis.

Þetta verkefni miðar að því að raungera þessa auknu fullnýtingu á hliðarhráefnum úr laxeldisframleiðslu til manneldis. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að innleiða framleiðsluferla, s.s frostþurrkun, sem henta fyrir þetta viðkvæma hráefni en geta jafnframt skapað verðmætar afurðir sem standast alþjóðlega samkeppni. Hér verður lögð áhersla á að þróa verðmæt fæðubótarefni úr laxalifur, milta, hrognum og hjörtum.

 

Fleiri fréttir

Allar fréttir
7. júní 2024
17,7 mkr. styrkur í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi
Lesa meira
4. júní 2024
Nýjar afurðir Value4Farm ESB verkefnisins
Lesa meira
3. júní 2024
Orkídea, Eimur, Blámi og Eygló með vinnudaga á Austurlandi
Lesa meira
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira