Við heimsóttum Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra Hveragerðisbæjar í gær. Aldís hefur mikinn áhuga á frumkvöðlastarfi og nýsköpun enda komin af miklum frumkvöðlum sem stofnuðu Kjörís á sínum tíma og er enn í eigu fjölskyldunnar sem rekur fyrirtækið af miklum myndarskap. Við ræddum tækifæri til nýsköpunar í sveitarfélaginu en þau eru fjölmörg. Næg gufa er til staðar í bænum sem má nýta í ýmis konar starfsemi og er nú þegar notuð t.d. í Kjörís, til bjórgerðar í Ölverk (sem er m.a. í eigu dóttur Aldísar), til þvotta í þvottahúsi Grundar/Áss dvalar- og elliheimila, til að hreinsa plast hjá Pure North o.sv.fr. Lóðarými fyrir léttan iðnað og garðyrkju er til staðar í bænum og starfsstöð LbhÍ innan seilingar á Reykjum. Tækifærin eru alls staðar!