Aðilar LIFE verkefnisins, Terraforming LIFE, hittust á upphafsfundi verkefnisins í Þorlákshöfn í gær. First Water ehf (áður Landeldi ehf) stýrir verkefninu en aðrir aðilar eru Orkídea, SMJ verkfræðistofa (Danmörk/Færeyjar), Bændasamtök Íslands og Ölfus Cluster. Einnig kemur Blue Ocean Technology í Noregi að verkefninu með ráðgjöf.
Verkefnið Terraforming LIFE hefur hlotið styrk upp á tæpan milljarð íslenskra króna frá Umhverfis- og loftlagsáætlun Evrópusambandsins, LIFE og er það fyrsti verkefnisstyrkur LIFE til íslensks verkefnis sem er undirritaður og samþykktur af ESB. Um er að ræða samstarfsverkefni Landeldis hf., Bændasamtakanna, Orkídeu, Ölfus Cluster og SMJ frá Færeyjum með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi.
Verkefnið miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði. Það eflir hringrásarhagkerfi innlendrar matvælaframleiðslu, samhliða því að minnka kolefnisspor og stuðla að umtalsvert jákvæðari umhverfisáhrifum bæði í landbúnaði og fiskeldi.
Rúnar Þór Þórarinsson, stjórnandi verkefnisins og fulltrúi Landeldis, undirstrikar mikilvægi hins víðtæka samstarfs: „Í þessu felast gríðarlega spennandi tækifæri til nýtingar lífrænna hliðarstrauma frá fiskeldi á landi. Afurðirnar verða til hagsbóta fyrir íslenska hringrásarkerfið og bæta umhverfisáhrif fiskeldis með því að framleiða ekki aðeins áburð til landbúnaðarframleiðslu heldur líka kolefnishlutlaust eldsneyti, raforku og hita.“
Fundurinn var mjög gagnlegur og skemmtilegt að hitta og spjalla við hina ýmsu einstaklinga sem tengjast þessu spennandi verkefni.
Umfang framkvæmda First Water ehf í Þorlákshöfn er stórfenglegt. Hér eru fundarmenn að skoða einn af mörgum stórum fiskeldistönkum sem eru í byggingu. Þessi tankur er 30 m í þvermál og tekur 55 þús. rúmmetra af sjó.