8. febrúar 2024

Bændablaðið segir frá skýrslu Orkídeu um lífgas og áburð

Í nýútkomnu Bændablaði segir blaðið frá fýsileikakönnun um áburðar- og lífgasver sem Orkídea lét vinna og kom út í desember. Endurskoðun Orkídeu á könnuninni stendur yfir með aðstoð sérfræðings í lífgasverksmiðjum frá Belgíu. Verkefnið var styrkt af kolefnissjóði garðyrkubænda í Garðyrkjudeild Bændasamtaka Íslands.

Bændablaðið er með ítarlega grein um úrgangsmál landbúnaðarins og segir að auki frá könnun Orkídeu á forsíðu (sjá mynd ofar hér). Umfjöllunina um úrgangsmál má einnig finna á pdf formi inni í blaðinu bls. 20-24.

Í forsíðufréttinni segir:

Vænlegt þykir að reisa áburðar- og lífgasver í uppsveitum Árnessýslu. Það sýna niðurstöður könnunar sem Orkídea gaf út í skýrslu í lok desember. Forsendur viðskiptamódelsins gera ráð fyrir að garðyrkjuúrgangi garðyrkjubænda og kúamykju kúabænda á svæðinu sé safnað og afurðirnar sem koma út úr verksmiðjunni verði lífrænn áburður, metan og koltvísýringur. Leiðir skýrslan í ljós að fjölþættur ávinningur geti orðið af slíku veri, fyrir garðyrkjubændur, kúabændur, sveitarfélagið og loftslagsmarkmið Íslands.

Orkídea lét vinna skýrsluna með stuðningi kolefnissjóðs garðyrkjunnar og deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands. Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um þróun orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi, segir að viðskiptamódelið geri ráð fyrir að hráefni sé sótt ferskt til bænda nokkrum sinnum í viku, þeim að kostnaðarlausu. „Kúabændur fá til baka jafnmikið af næringarefnum og þeir setja inn í formi áburðar, alveg gjaldfrjálst, bæði í fljótandi og föstu formi. Sá áburður er auðleysanlegri en mykjan og bændur geta geymt hann og borið á þegar hentar best upp á sprettu. Það bæði sparar bændum hauggeymslupláss og bætir nýtingu næringarefna úr mykjunni í ræktun. Við eigum eftir að ræða þessi mál betur við bændur, fyrst er að tryggja betur rekstrargrundvöll versins. En þau viðbrögð sem við höfum fengið eru jákvæð,“ segir Sveinn.

Ávinningur garðyrkjubænda

„Garðyrkjubændur njóta góðs af því að geta losnað við hliðarafurðir ræktunar og fá að einhverju leyti áburð á vökvaformi sem þeir geta nýtt. En umfram allt leysir þetta úrgangsvandamál þeirra. Þá verður metan ein af afurðum versins sem hægt er að nota á ýmsan hátt, til dæmis á flutningabíla til flutnings á vörum á markað eða á vinnuvélar. Sú tækni er til og þrautreynd í Evrópu. Jafnvel er hægt að nýta metan til hitunar á vatni þegar kuldakast ríður yfir. Lífgasverið mun einnig framleiða koltvísýring sem garðyrkjubændum stæði til boða á hagstæðu verði til nota í sínum gróðurhúsum,“ heldur Sveinn áfram.

Minni kolefnislosun

Í viðskiptamódelinu er gert ráð fyrir að verið taki á móti alls 46.500 tonnum á ári af kúamykju og um þrjú þúsund tonnum af garðyrkjuúrgangi frá garðyrkjustöðvum í Reykholti, á Flúðum og í Laugarási. Til að byrja með er eingöngu gert ráð fyrir úrgangi frá ylrækt, en ekki annarri ræktun.

Sveinn telur að væntanlega verði sótt í Orkusjóð vegna minni kolefnislosunar sem hlytist af verkefninu. Viðræður séu í gangi við ráðuneytið um aðra styrkjamöguleika, til dæmis niðurgreiðslu á afurðum frá verinu. Ekkert sé enn í hendi, en næstu skref verði að kanna betur þessa þætti og möguleikana á því að selja vottaðar kolefniseiningar.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu í Reykholti árið 2022 um hagkvæmniskoðun á stofnun Græns auðlindagarðs í Reykholti í Biskupstungum. Aðilar að viljayfirlýsingunni voru Orkídea, sveitarfélagið Bláskógabyggð og nokkrir garðyrkjubændur í ylrækt. Fýsileikagreining um áburðar- og lífgasverið er ein afurð þeirrar vinnu. Markmiðið með Græna auðlindagarðinum er að byggja upp hringrásarkerfi í framleiðslu, sem byggist á því að lágmarka úrgang og hámarka nýtingu auðlinda.

Úr umfjöllun Bændablaðsins í dag.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira
3. maí 2024
Mikil nýsköpun í ræktun salats í Lambhaga
Lesa meira
26. apríl 2024
Kornræktarfélag Suðurlands stofnað
Lesa meira
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira