21. apríl 2021

Flúðasveppir í fararbroddi

F.v. Helga frá Orkídeu, Ragnheiður og Ævar frá Flúðasveppum

Flúðasveppir er eina sveppabú landsins og ræktar um 600 tonn af úrvals sveppum árlega. Við heimsóttum þau Ragnheiði markaðsstjóra Flúðasveppa og Ævar framleiðslustjóra í vikunni. Georg Ottósson er framkvæmdastjóri og eigandi Flúðasveppa og garðyrkjustöðvarinnar Flúða-Jörfa á sama stað.

Svepparæktunin á Flúðum er nákvæmnisverk og á bak við ræktunina er áralöng reynsla og tilraunir með íslensk ræktunarhráefni. Sveppir eru ræktaðir í rotmassa sem búinn er til úr blöndu af íslenskum bygghálmi og strandrey sem þau hjá Flúðasveppum rækta sjálf og búfjáráburði frá nálægum bændum á Suðurlandi. Í þetta er blandað hreinu íslensku vatni en rétt rakastig er lykilatriði í allri ræktuninni. Ræktaðar eru þrjár gómsætar tegundir, hvítir matarsveppir, brúnir kastaníusveppir og portabello sveppir. Rotmassinn er síðan nýttur í gróðurmold að lokinni ræktun þar sem hann er blandaður við íslenska mold og vikur. Einnig er hægt að fá rotmassann sem hreina afurð og nýta sem áburð í garðinn eða grænmetið.

Flúða-Jörfi er brautryðjandi í lýsingu papriku en auk papriku (100 tonn/ár) ræktar stöðin tómata (100 tonn/ár) undir lýsingu og úrval útigrænmetis (tæplega 400 tonn/ár). Jafnframt er ræktað bygg og strandreyr sem nýtist m.a. í svepparæktunina. Garðyrkjustöðin Flúða-Jörfi og Flúðasveppir eru hituð upp með vatni frá Hitaveitu Flúða, en aðgangur að miklu magni af heitu vatni er frumskilyrði ylræktar af þessu tagi.

Við spjölluðum líka um næstu skref í vöruþróun og nýsköpun hjá þessu síunga frumkvöðlafyrirtæki sem einnig rekur hinn geysivinsæla matsölustað Farmers Bistro, þar sem grænmeti frá stöðinni er nýtt í fjölbreytta rétti. Farmers Bistro mun opna 1. júní nk.

Takk fyrir elskulegar móttökur, Ragnheiður og Ævar!

Fleiri fréttir

Allar fréttir
26. apríl 2024
Kornræktarfélag Suðurlands stofnað
Lesa meira
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira