Hjónin Hrafnhildur Árnadóttir og Sigurður Steinar Ásgeirsson hafa komið sér upp frostþurrkara í tilraunaskyni í bílskúrnum hjá sér í Þorlákshöfn. Þar hafa þau gert tilraunir með frostþurrkun á ýmsu góðgæti t.d. kryddi, bóluþangi, ávöxtum og tómötum. Frostþurrkun viðheldur bragðgæðum og lögun matvæla mun betur en hefðbundin þurrkun. Félagið þeirra heitir Fersk þurrkun ehf. Við hjá Orkídeu heimsóttum þau í dag, fengum að smakka ýmislegt góðgæti og áttum gott samtal um áskoranir frumkvöðla og spennandi verkefni framundan. Þau eru að leita sér að heppilegu húsnæði fyrir starfsemina sem hægt er að votta og fá starfsleyfi fyrir matvælaframleiðslu. Samhliða því er ætlunin að skala upp afkastagetuna með stærri frostþurrkara. Fersk þurrkun býður upp á tilraunir með frostþurrkun fyrir matvælaframleiðendur, til að byrja með en það er aldrei að vita nema þau fari að framleiða sjálf í framtíðinni. Við hjá Orkídeu fylgjumst spennt með og verðum á hliðarlínunni með aðstoð við þau t.d. í gegnum styrkjafrumskóginn.
Hér að neðan eru myndir af súkkulaðimyntu, bóluþangi, dvergþangi og tómötum. Myndir af matvælum: Hrafnhildur Árnadóttir.