18. ágúst 2022

GAJA býr til metan og moltu

F.v. Valgeir, Lea, Gunnar Dofri, öll frá Sorpu og Helga (frá Orkídeu)

Orkídea vinnur nú að því að koma á samstarfi við ýmsa hagaðila í matvælaframleiðslu um að koma á fót lífgas og áburðarvinnslu sem nýtir lífrænan úrgang úr landbúnaði og fleiri greinum. Áburðarverð er í hæstu hæðum og getur haft verulega áhrif á fæðuframleiðslu landsins.

Við fórum í heimsókn til GAJA, gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu, í gær þar sem Gunnar Dofri, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu tók á móti okkur ásamt Valgeiri og Leu, starfsmönnum stöðvarinnar. GAJA er samsett vinnsla, gas og molta, á heimilisúrgangi sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Ferlið hefst með því að flokkuðum heimilisúrgangi er blandað saman við stoðefni, trjákurl, og sett í sérstaka vinnsluklefa. Í honum fer fram fyrsta stig gasframleiðslunnar sem felst í því vatni og meltuvökva úr gerjunartanki er sprautað í tiltölulega litlu magni yfir blönduna í klefanum og vatnið leysir til sín auðleyst lífræn efni, svona svipað ferli og þegar hellt er upp á kaffi. Þessum lífrænu efnum er safnað saman í gerjunartankinn. Í gerjunartankinum brjóta örverur niður lífrænu efnin í lausninni undir loftfirrðum aðstæðum og mynda lífgas sem er blanda af lofttegundunum metan og koltvísýringi. Lífgasið fer í söfnunarblöðru og þaðan í gasvinnslu Sorpu sem aðskilur lofttegundirnar og hreinsar þær. Útkoman er 95% metan. Að þessu ferli loknu, sem tekur um 3-4 vikur í gerjunarklefanum, er dælt inn lofti og það sem eftir er af lífræna úrganginum er jarðgert í moltu sem nýta má sem jarðvegsbæti. Það ferli tekur um 6-8 vikur í viðbót, 3-4 vikur í gerjunarklefa og er síðan flutt í sérstakan þroskunarklefa þar sem efnið er haft í 3-4 vikur til viðbótar. Í jarðgerðarferlinu hitnar massinn í um 70°C sem eyðir óæskilegum örverum t.d. sýklum.

Það sem helst stendur í vegi fyrir góðri moltun er blöndun óæskilegra efna eða hluta í almenna sorpið frá heimilum t.d. gler, plast, kaffihylki og raftæki, svo dæmi séu tekin, sem ekki næst að flokka úr áður en ferlið hefst. Það stendur til bóta því Reykjavík ætlar hefja sérsöfnun á lífrænum úrgangi í vetur og binda menn vonir við að það muni bæta gæði moltunnar til muna.

Takk fyrir góðar mótttökur, Gunnar Dofri, Valgeir og Lea!

Fleiri fréttir

Allar fréttir
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira
11. mars 2024
Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum
Lesa meira