Orkídea er þátttakandi í ESB verkefninu Value4Farm sem er evrópskt samstarfsverkefni, fjármagnað af Horizon Europe áætlun ESB. Tilgangur Value4Farm er að styðja við innleiðingu staðbundinna endurnýjanlegra orkugjafa í landbúnaði og samhliða styðja við aukna sjálfbærni og hagkvæmni í matvælaframleiðslu. Verkefninu var hleypt af stokkunum 1. september 2023 og því lýkur í lok febrúar 2027. ESB leggur mikla áherslu á að verkefni á þeirra vegum séu kynnt og um þau fjallað hvar sem því verður við komið og hafa þátttakendur Value4Farm verið duglegir að kynna verkefnið á fjölmörgum viðburðum og á ýmsum miðlum. Hér teljum við upp viðburði þar sem Value4Farm hefur verið kynnt. Við stiklum á stóru og listinn er langt frá tæmandi.
Agata Witorizec frá Institute of Soil Science and Plant Cultivation State Research Institute (IUNG) var fulltrúi Value4Farm á ráðstefnu um orku og endurvinnslu lífræns úrgangs, sem haldin var í Zakopane, Póllandi, dagana 11. til 13. mars 2025. Þar kynnti Agata Value4Farm með sérstaka áherslu á þann hluta verkefnisins sem varðar framleiðslu á lífgasi. Alls tóku sóttu ráðstefnuna 184 aðilar og voru 26 fyrirlesarar. Pallborð buðu síðan upp á kraftmikinn vettvang til skoðanaskipta um sjálfbæra starfshætti í líforkuframleiðslu og endurvinnslu úrgangs. Í kynningu sinni deildi Agata hennar sjónarmiðum um meðhöndlun gerjaðs lífmassa og á markmið og framfarir Value4Farm verkefnisins þar að lútandi.
Vefur https://en.iung.pl/ https://www.wmrconf.org/
Value4Farm verkefnið varð nýlega hluti af AREA ZERO samstarfsneti evrópskra rannsóknar og nýsköpunarverkefna sem hafa að markmiði að efla sjálfbæra starfshætti og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í landbúnaði. Lykilþáttur á þeirri vegferð er að þróa og efla notkun endurnýjanlega orkugjafa eins og lífgas, sólarorku og jarðvarma. Af fjölmörgum áhugaverðum verkefnum má nefna RES4LIVE, sem varðar notkun sólarorku í landbúnaði, HyPErFarm, sem skoðar notkun dróna og skynjara í landbúnaði og Symbiosyst sem rannsakar samlegðaráhrif milli landbúnaðarframleiðslukerfa og sjálfbærrar orkuframleiðslu. Þátttaka Value4Farm í AREA ZERO er dæmi um hvernig þátttaka í ESB verkefnum getur leitt til aukinnar þekkingar og skilnings á tækifærum hvað varðar hagnýtingu nýrrar tækni til að auka skilvirkni, sjálfbærni og verðmæti atvinnuvega.
Vefur https://areazerocluster.eu/
Sem hluti af evrópsku lífmetanvikunni héldu Evrópsku lífgassamtökin (EBA) árlega ráðstefnu sína í Brussel 23.-24. október 2024 með yfir 700 þátttakendum. Þar á meðal var fulltrúi INAGRO sem er virt rannsókna- og ráðgjafarfyrirtæki í Belgíu sem stundar rannsóknir og þróun á sviðum landbúnaðar og ylræktar. INAGRO leiðir jafnframt Value4Farm verkefnið en ráðstefnan var sótt til að afla nýjustu upplýsinga um lífgas- og lífmetanframleiðslu og deila niðurstöðum Value4Farm. Tengingar við virt félög eins og INAGRO eru ómetanlegar þar sem þær veita aðgengi að þekkingu og tengslaneti hvað varðar nýnæmi og nýsköpun í landbúnaði og ylrækt og sér í lagi hvað varðar sjálfbærni og tækniþróun í þeim greinum.
Vefur https://www.europeanbiomethaneweek.eu/ https://www.europeanbiogas.eu/
Eins og áður hefur komið fram lýkur Value4Farm í lok febrúar 2027. Framundan hjá okkur hjá Orkídeu er að kynna áfram fýsileika lífgasframleiðslu á Íslandi og þann margþætta ávinning sem slík framleiðsla getur gefið af sér. Á þeirri vegferð hefur Orkídea nú þegar fengið til liðs við sig framsækna bændur í uppsveitum á Suðurlandi sem gefur verkefninu mikinn meðbyr.
Af áhugaverðum viðburðum sem framundan eru má helst telja ráðstefnu Orkídeu og systurverkefnisins Eims um lífgas- og áburðarframleiðslu þar sem fjallað verður um möguleika og hindrarnir á þeirri vegferð. Ráðstefnan verður haldinn á Selfossi 5. júní 2025. Dagskrá verður kynnt síðar.
Sömuleiðis eru uppi áform um frekari kynningar á Suðurlandi í ljósi aukins áhuga bænda á viðfangsefninu.
Fylgstu með framgangi Value4Farm á vef verkefnisins https://value4farm.eu/, á vef Orkídeu https://orkidea.is/ og á samfélagsmiðlum