20. mars 2025

Grein starfsfólks Orkídeu um hringrásargarða birt í Bændablaðinu

Starfsfólk Orkídea sendi grein til Bændablaðsins sem birtist í 6.tbl. blaðsins sem kom út í dag. Þar er fjallað um hringrásargarða eða græna iðngarða og bent á mikilvægi þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Hringrásarhugsun og sjálfbærni eru hugtök sem eru órjúfanlega tengd hugmyndafræði hringrásargarða eða grænna iðngarða og sé það gert þá er það raunverulegur áfangi í átt að sjálfbærni og að auki má gera ráð fyrir að auðveldara sé að afla stuðnings grænna lánveitenda eða grænna fjárfesta.

Nokkur brot úr greininni fylgja hér á eftir en við bendum áhugasömum að lesa greinina í heild á vef Bændablaðsins, 6.tbl. bls. 52.

„Önnur útfærsla hringrásargarða eru svokallaðir landbúnaðargarðar (e. agriindustrial parks). Ekki hefur verið fjallað sérstaklega um slíka iðngarða á Íslandi en markmið þeirra er ræktun og framleiðsla á matvælum og að hagnýta það sem til fellur frá þeirri starfsemi t.d. til framleiðslu á lífgasi og lífmetani, rafmagni, hita, lífkoltvísýringi, fóðri og lífrænum áburði. Þessar afurðir eru eftirsótt markaðsvara en ætti fyrst að nýtast fyrirtækjum innan landbúnaðargarðsins með sjálfbærni og markvissa hagnýtingu að leiðarljósi. Þannig gegna landbúnaðargarðarlykilhlutverki í hugmyndum um lífhagkerfi sem byggir á hringrás, grænum virðiskeðjum og tækifærum til verðmætasköpunar milli fyrirtækja innan landbúnaðargarðsins og við fyrirtæki í nágrenni hans.

Landbúnaðargarðar byggja einnig á hugmyndum um samlífi (e. symbiosis) fyrirtækja innan iðngarðsins t.d. með að framleiða lífgas úr mykju,  heyfyrningum, úrgangi frá ylrækt og öðrum lífrænum úrgangi t.d. frá landeldi og til framleiðslu á áburði úr meltunni sem gengur af lífgasframleiðslunni. 

Endurnýting og ummyndun lífhráefna er lykilstef í landbúnaðargörðum en slíkir garðar líkt og aðrir hringrásargarðar byggja líka á hugmyndum um iðnaðar- og nýsköpunarklasa þar sem verður til þekking, reynsla og menning bæði innan iðngarðsins og við nærsamfélag og aðra hagaðila. Tækniþróun á sviði matvælaframleiðslu er líka mikilvægur hluti iðngarðsins t.d. innleiðing gervigreindar við eftirlit og ákvarðanatöku og sjálfvirkni og notkun þjarka sem  sæju um umhirðu og uppskeru. Þannig gæti, í kringum kjarnastarfsemi landbúnaðargarðsins, þróast frjótt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðla sem hafa ávinning af nálægð við bæði efnisstrauma og sérfræðiþekkingu iðngarðsins. Sem hliðarstef, gæti iðngarðurinn jafnvel verið áfangastaður fyrir  ferðamenn. Vísir að slíku er til í Reykholti í uppsveitum Árnessýslu, í fyrirtækinu Friðheimum sem hefur samtvinnað ylrækt og ferðaþjónustu í áfangastað sem nýtur mikilla vinsælda meðal ferðalanga, innlendra og erlendra. Í Reykholti er verið að ráðgera lífgas- og áburðarvinnslu úr lífrænum straumum úr ylrækt og kúabúskap og þar með nýta lífauðlindir betur.“

Fleiri fréttir

Allar fréttir
20. mars 2025
Grein starfsfólks Orkídeu um hringrásargarða birt í Bændablaðinu
Lesa meira
18. mars 2025
Góður hugarflugsfundur á Flúðum um tækifæri í jarðhita
Lesa meira
6. mars 2025
Lífgas ehf – rekstrarfélag um lífgas- og áburðarvinnslu í Uppsveitum stofnað
Lesa meira
3. mars 2025
Staða garðyrkjunnar – grein þingmanns í Bændablaðinu
Lesa meira