31. maí 2022

GroeneWoud lífgas- og áburðarvinnsla í Sint-Oedenrode í Hollandi

Eigandi og framkvæmdastjóri gas- og áburðarvinnslunnar, Frank van Genugten

Hluti af dagskrá ManuREsource ráðstefnunnar sem við hjá Orkídeu tókum þátt í 11.-13. maí sl. fólst í skoðunarferð í lífgas- og áburðarvinnsluna GroeneWoudGas í Sint-Oedenrode í Hollandi.

Þar er daglega tekið á móti ferskri kúamykju sem flutt er þangað í tankbíl frá 16 kúabændum sem eru í um 6 km radíus í kringum lífgasframleiðslustöðina. Alls tekur stöðin við 40.000 tonnum af mykju á ári. Úr þessar mykju er framleitt lífgas sem síðan er dælt beint á jarðgasdreifikerfi sveitarfélagsins. Lífgasið myndast við loftfirrt niðurbrot sem á sér stað þegar bakteríur, sem þegar eru til staðar í mykjunni við náttúrulegar aðstæður, brjóta niður lífrænt efni við súrefnislausar kringumstæður. Við þetta ferli myndast lífgas sem samanstendur af 55-75% metani (CH4), 25-45% koltvísýringi (CO2), vatni (H2O) ofl. efnum. Lífgasið er hreinsað (þ.e. CO2, H2O ofl. fjarlægt úr því) og uppfært í 95-98% grænt lífgas (CH4) sem síðan er dælt inn á jarðgasnetið. CO2 gasið sem myndast við framleiðsluna er líka hreinsað og þétt niður á kúta og notað í ræktun í gróðurhúsum. Eftir gerjunarferlið er hratið sem eftir verður aðskilið í skilvindu í fljótandi og fastan hluta. Fasti hlutinn er síðan þurrkaður og pressaður í köggla sem eru notaðir sem garðáburður. Vökvinn er aftur á móti strípaður og skrúbbaður og framleitt  köfnunarefnisríkt ammóníumsúlfat (með 8% N) og affallið síðan nýtt sem lífrænn áburður sem er ríkur af kalíum en inniheldur lítið af köfnunarefni og fosfati.

Vinnsla eða stöð af þessari stærð og með þessa fjölbreyttu framleiðslumöguleika kostar um 3,2 M€ eða um 450 mkr, þar af er lífgashreinsunin um 25% af stofnkostnaði. Tekjur stöðvarinnar eru frá kúabændum sem greiða stöðinni fyrir að sækja og taka á móti mykjunni auk sölu á hreinsuðu metangasi, koltvísýringi og áburði, bæði föstum og fljótandi. Væntanlega yrði tekjumódelið öðruvísi hérlendis fyrir rekstur af þessu tagi, sem er mjög áhugaverður á tímum ört hækkandi áburðar- og eldsneytisverðs.

Orkídea hefur sótt um styrki til að skoða hagkvæmni stöðva af þessu tagi miðað við íslenskar aðstæður.

Mykjan er sótt á sérútbúnum bíl sem sækir mykju til bænda í nágrenninu og afhendir þeim unninn áburð.

Gerjunartankurinn tekur 650 rúmmetra og er fyllt á hann daglega. Þaðan streymir lífgas til frekari vinnslu og áburðarhrat er tæmt í skömmtum sem eru unnir á ýmsan hátt.

Gasvinnslueiningin samanstendur af m.a. himnuskiljum (til að aðskilja vatn, metan og koltvísýring) og þrýstitönkum. Metan er selt inn á gasdreifinetið, koltvísýringur er þjappaður og seldur til garðyrkjustöðva. Gasvinnslueiningin kemur fullbúin frá framleiðanda í gámi og þar er einnig vöktunar- og stjórnbúnaður.

Hratið úr gerjunartanknum fer í skilvindu þar sem fasta efnið er skilið frá fljótandi hlutanum. Fljótandi hlutinn er unnin frekar (köfnunarefni aðskilið, eftir verður kalí) og fasti hlutinn fer í kornun (pellets). Kornin innihalda N og P og eitthvað af kalí, auk lífræns hluta sem bætir jarðveg. Kornin eru seld í ýmsum pakkningum, til nota t.d. í heimagörðum, annað er selt í sekkjum til stærri notenda í landbúnaði og garðyrkju. Fljótandi áburður fer aftur til bænda eða til garðyrkjustöðva.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
7. júní 2024
17,7 mkr. styrkur í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi
Lesa meira
4. júní 2024
Nýjar afurðir Value4Farm ESB verkefnisins
Lesa meira
3. júní 2024
Orkídea, Eimur, Blámi og Eygló með vinnudaga á Austurlandi
Lesa meira
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira