15. febrúar 2024

Hliðarafurðir garðyrkju fela í sér verðmæti

Kryddblöndur úr hliðarafurðum prófaðar í ýmsa rétti. Mynd: Matís

Fullnýting eiginlegra hliðarafurða frá garðyrkju sem ekki teljast til uppskeru hefur hingað til ekki verið í brennidepli, en á garðyrkjubýlum fellur til mikið magn hliðarafurða sem hægt er að nýta í fjölbreytta framleiðslu. Á Suðurlandi eru flestar garðyrkjustöðvar landsins, bæði í ylrækt og útirækt, því fellur til umtalsvert magn af þessum lífmassa á því svæði.

Nýlega kom út skýrsla verkefnisins Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju, en hún er lokaafurð verkefnis sem unnið var með styrk frá Matvælasjóði í samstarfi Orkídeu, Matís og Bændasamtaka Íslands. Þar kemur m.a. fram að ytri blöð blómkáls og spergilkáls sé hægt að nýta í kryddblöndur og úr þeim er hægt að vinna trefjaefni til íblöndunar í matvæli. Sömuleiðis mældist andoxunarvirkni í ýmsum hliðarafurðum og mögulega er hægt að nýta afskurð rósa í snyrtivörur eins og andlitskrem.

Markmið verkefnisins var að kanna möguleika á nýtingu fjölbreyttra hliðarafurða frá garðyrkju í innihaldsefni í matvæli, fæðubótarefni eða snyrtivörur. Hliðarafurðirnar sem voru til rannsóknar voru gúrku- og tómatblöð, blöð af útiræktuðu blómkáli og spergilkáli auk blaða og stilka úr blómarækt. Einnig var skoðað hvort bæta mætti nýtingu á annars flokks gulrófum og kartöflum og skoðað hvort öruggt væri að neyta afurðanna. Allt var þetta rannsakað með það fyrir augum að auka virði grænmetisframleiðslu, bæta nýtingu og auka sjálfbærni.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni á vefsíðu Matís: Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju og jafnframt tók Bændablaðið hana til ítarlegrar umfjöllunar í tengslum við grein blaðsins um úrgangsmál landbúnaðarins.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira
11. mars 2024
Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum
Lesa meira