6. janúar 2022

Hreiðrið – mikilvægt skref til aðstoðar frumkvöðlum

Gísli Halldór bæjarstjóri Árborgar og Ingunn framkvæmdastjóri Háskólafélagsins skrifa undir samning. Mynd: Háskólafélag Suðurlands.

Hreiðrið, ný aðstaða fyrir frumkvöðla á Árborgarsvæðinu, var handsöluð með samningi Háskólafélags Suðurlands við Sveitarfélagið Árborg rétt fyrir síðustu jól. Árborg niðurgreiðir leigu fyrir rýmið en Háskólafélagið aðstoðar frumkvöðla með ráðgjöf. Setrið er mjög mikilvægt skref í átt að aukinni aðstoð við frumkvöðla á svæðinu. Fyrst um sinn er boðið upp á ráðgjöf og skrifstofuaðstöðu fyrir frumkvöðla í Fjölheimum þar sem Háskólafélagið er til húsa. Í gegnum samning Háskólafélagsins við SASS er unnt að bjóða frumkvöðlum í Hreiðrinu betri þjónustu og ráðgjöf og starfsfólk Orkídeu verður einnig til ráðgjafar þegar þess er óskað. Í frétt Háskólafélagsins segir eftirfarandi:

Háskólafélag Suðurlands og sveitarfélagið Árborg hafa gert með sér samning um að starfrækja frumkvöðlasetur sem fengið hefur nafnið Hreiðrið og verður staðsett í Fjölheimum á Selfossi.

Hreiðrinu er ætlað að  efla þekkingu og vitund frumkvöðla á Suðurlandi á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og markaðsmála svo að til verði vel skilgreind og mótuð verkefni meðal þeirra til frekari fjármögnunar, m.a. hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og öðrum sjóðum. Þar með má gera ráð fyrir betri umsóknum til Uppbyggingarsjóðs og frá Suðurlandi í aðra samkeppnissjóði. Markmiðið er að til verði nýjar vörur og/eða þjónusta hjá frumkvöðlum á Suðurlandi.

Hreiðrinu verður stýrt og það rekið af Háskólafélaginu en samstarf um handleiðslu við frumkvöðla verður við ráðgjafa á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga/SASS, FabLab Selfoss og Atorku auk annarra úr sunnlensku samfélagi, sem áhuga hafa á þátttöku í verkefninu.

Liður í verkefninu er leiðaraþjálfun fyrir frumkvöðlaráðgjafa en Háskólafélagið fékk styrk úr Lóu nýsköpunarsjóði landbyggðarinnar til þess að standa fyrir vinnustofum í leiðaraþjálfun fyrir ráðgjafa sem koma að handleiðslu við frumkvöðla. Fyrsta vinnustofan var haldin 7.desember sl. og er það í höndum Svövu Bjarkar Ólafsdóttur hjá ráðgjafafyrirtækinu RATA að leiða vinnustofurnar.

Gert er ráð fyrir að bjóða fyrstu frumkvöðlana velkomna í Hreiðrið strax á nýju ári en allar nánari upplýsingar veita Ingunn og Brynja hjá Háskólafélagi Suðurlands – sjá nánar á Hreiðrið frumkvöðlasetur

Mynd: Háskólafélag Suðurlands

Fleiri fréttir

Allar fréttir
7. júní 2024
17,7 mkr. styrkur í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi
Lesa meira
4. júní 2024
Nýjar afurðir Value4Farm ESB verkefnisins
Lesa meira
3. júní 2024
Orkídea, Eimur, Blámi og Eygló með vinnudaga á Austurlandi
Lesa meira
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira