7. maí 2021

Öflug kornframleiðsla hjá Sandhóli

Helga frá Orkídeu og Örn Karlsson, eigandi Sandhóls

Við heimsóttum Örn Karlsson eiganda Sandhóls í Meðallandi og Hörð bústjóra hans í vikunni. Á Sandhóli er stundaður blandaður búskapur og mikið frumkvöðlastarf. Þar eru ræktaðar ýmsar nytjajurtir eins og hafrar, bygg og repja. Ekki eru notuð nein varnarefni s.s. skordýreitur og illgresiseyði við ræktunina en varnarefni eru mikið notuð erlendis við sambærilega ræktun. Á Sandhóli er einnig nautgriparækt þ.e. holdanautsblendingar. Verið að rækta upp hreinan stofn en það tekur tíma. Sandhóll leggur áherslu á fullnýtingu afurða við búskapinn. Hálmur af ökrum er nýttur sem undirburður fyrir nautgripi. Repjuhrat sem verður til við kaldpressun repjufræs er svo nýtt sem próteingjafi í fóður nautgripa. Bygg og hafrar, sem ekki eru notaðir til manneldis eru einnig notaðir í fóður og eina aðkeypta innihaldið í fóðri nautgripanna eru steinefni.

Þriggja fasa rafmagn er nýkomið í sveitina og skiptir öllu fyrir framleiðsluna einkum þurrkun.

Um 160 hektarar lands eru notaðir í kornrækt, mest repja. Sandhóll þurrkar allt sem er tekið af ökrum, repjufræið er pressað við lágt hitastig, gegnum safapressu og búin til matarolía úr fyrstu pressun, einnig í sápugerð (URD). Repjuhratið fer í fóður fyrir nautgripina.

Hafrar, bygg, repja er mest ræktað fyrir skepnur og stunduð er skiptiræktun. Byggið selt í bruggverksmiðju sem framleiðir meðal annars íslenskt viskí. Afgangurinn af bygginu er notað í fóður fyrir nautgripi á bænum. Hálmurinn af stöngli og blöðum byggplöntunnar er nýttur sem undirburður fyrir nautgripi.

Sandhóll framleiðir bæði fínvalsaða hafra (haframjöl) og tröllahafra. Tröllahafrar eru valsaðir af heilu fræi en til að fá haframjöl eru hafrarnir fyrst klipptir í tvennt eða þrennt áður en þeir eru valsaðir. Hýðið af höfrunum og þeir hafrar sem falla af í framleiðslunni eru nýtt í fóður. Hálmurinn af stöngli og blöðum hafrajurtarinnar er nýttur sem undirburður fyrir nautgripi. Þannig næst fram fullkomin nýting á plöntunni og sóun haldið í lágmarki.

Stefnan er að fara til Finnlands og skoða aðstöðu hjá öðrum smáframleiðendum sem eru að rækta svipaðar nytjajurtir – svona þegar sóttvarnir leyfa.

Haframjólk þróuð í samvinnu við Matís , unnið með ensímum. Beðið er eftir niðurstöðum skýrslu sem kemur úr þessu verkefni áður en farið verður í frekari fjárfestingar á þessu sviði.

Takk fyrir fróðlegt spjall og góðar móttökur, Örn og Hörður!

Kaldpressa fyrir repjuolíu á Sandhóli

Fleiri fréttir

Allar fréttir
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira
11. mars 2024
Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum
Lesa meira
28. febrúar 2024
Vefsíða Value4Farm komin í loftið
Lesa meira