28. apríl 2023

Orkídea, Eimur og Landsvirkjun heimsækja græna iðngarða í Danmörku

Hópmynd frá GreenLab Skive

Starfsmönnum Eims og Orkideu var boðið að heimsækja græna iðngarða á Jótlandi í apríl síðastliðnum. Með í för var fulltrúi Landsvirkjunnar en Landsvirkjun er einn helsti styrktaraðili félaganna.

Teymið heimsótti fjóra slíka iðngarða og ljóst að Danir hafa náð umtalsverðum árangri í þróun hugmyndarinnar um græna iðngarða.

Hugtakið um græna iðngarða snýst um að endurhugsa og endurhanna línulega framleiðslu fyrirtækja með hringrás og fjölnýtingu að leiðarljósi. Markmiðið er að fullnýta efnis- og auðlindastrauma þar sem úrgangur eins fyrirtækis getur orðið auðlind þess næsta.

Hópurinn heimsótti fyrst grænan iðngarð í Hirtshals á norður Jótlandi sem margir munu kannast við sem viðkomustaður ferjunnar Norröna. Mikil uppbygging hef átt sér stað á svæðinu í fyrirhugaðari stækkun hafnarmannvirkja og í þróun græns iðngarðs, GreenPort North, sem mun gegna lykilhlutverki í í fullvinnslu úrgangs frá landbúnaði, fiskeldi og öðrum uppsprettum verðmætra efnisstrauma sem jafnvel eiga uppruna í öðrum löndum.

Ferðalangar notuðu tækifærið og heimsóttu nálæga lífgasverksmiðju, Sindal Biogas, sem hefur mikil umsvif í framleiðslu á lífgasi frá landbúnaði á svæðinu. Reksturinn hefur gengið vel og er verið að stækka líforkuverið til samræmis við það.

Frá Hirtshals lá leiðin til austurs til Green Lab Skive sem er annar grænn iðngarður en sögu hans má rekja aftur til 2008 og til grænnar umbreytingaráætlunar sveitarfélagsins Skive. Iðngarðurinn í Skive er orðinn nokkuð þroskaður og snerist fundur með forsvarsfólki aðallega um almenna rekstrarþætti og úthlutun landrýma innan iðngarðsins til fyrirtækja sem bæði verða að leggja til og hafa ávinning af starfsemi iðngarðsins. Frá Skive lá leiðin til Álaborgar með viðkomu í Álaborgarhöfn þar sem rekið er rannsóknar- og samstarfssetur um symbiosis sem er hugtak úr líffræði sem lýsir víxltengslum lífvera. Hugtakið hefur verið heimfært upp á iðnað ýmsan sem getur þróað með sér slík víxltengsl jafnvel þó ólík séu. Íslenski hópurinn fékk mjög áhugaverða kynningu frá starfsfólki setursins þar sem dregin var upp saga þess og hugmyndafræði fjórfeldisins eða Quadruple Helix, sem markar þróunar- og nýsköpunarsamstarf helstu hagaðila þ.e.a.s atvinnulífs, hins opinbera, fræðasamfélags og almennings. Hér var áhugavert að upplifa hvernig fræðasamfélagið var virkur þátttakandi í þróun grænna iðngarða og hvernig þróun þeirra var hugsuð út frá ýmsum sjónarhornum þ.m.t. sem tæknileg, umhverfisleg og samfélagsleg áskorun.

Þessi heimsókn til Jótlands var í alla staði mjög gagnleg og ljóst að Danir hugsa bæði stórt og til lengri tíma. Teymið þakkar öllum þeim sem lögðu sig fram við að kynna sína starfsemi og hlakkar mikið til frekara samstarfs.

Hópmynd frá rannsóknar- og samstarfssetrinu í Álaborg

Mynd frá heimsókn í Sindal lífgasverksmiðjunni

Græni iðngarðurinn í Skive

Fleiri fréttir

Allar fréttir
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira
11. mars 2024
Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum
Lesa meira