Orkídea er þátttakandi í nýju Evrópuverkefni sem var samþykkt fyrir nokkru en er orðið opinbert núna. Verkefnið snýst um þróun á sjálfbærum virðiskeðjum með endurnýjanlegri orku til að svara þörfum bænda (Sustainable renewable energy VALUE chains for answering FARMers’ needs), eða í styttri útgáfu Value4Farm. Verkefnið hlaut styrk upp á tæplega 6,4 MEUR eða um 945 Mkr ISK. Alls taka 14 aðilar þátt, víðsvegar um Evrópu og er hlutur Orkídeu um 44 Mkr ISK. Verkefnið mun standa yfir í 3,5 ár og hefst 1. sept. nk. InAgro ráðgjafafyrirtækið í Belgíu stýrir verkefninu.
Verkefnið miðar að því að benda á og sannreyna ýmsar leiðir til að gera landbúnað óháðan jarðefnaeldsneyti í samræmi við Grænan Sáttmála ESB (Green Deal). Leitað verður leiða til að nýta staðbundnar uppsprettur endurnýjanlegrar orku, einkum lífgas, í þátttökulöndunum og tengja þá nýtingu við sjálfbæra matvælaframleiðslu. Í Danmörku verða prófaðar viðbætur við hefðbundna lífgasframleiðslu til leysa þarfir staðbundinna stórframleiðenda í landbúnaði. Í Belgíu verða ferlar bættir til að auka skilvirkni í rafmagns-, hita- og eldsneytisframleiðslu til að svara þörfum smærri býla fyrir sjálfbæra vélanotkun. Á Ítalíu verða nýttar ýmsar leiðir til að tvinna saman mismunandi lífræna strauma til að skapa lífgasver til að sinna staðbundinni orkuþörf. Leiðarvísar (protocols) fyrir sjálfbæran landbúnað verða þróaðar sem styðjast við reynslu 200 bænda til að mæta áskorunum í landbúnaði og jafnframt kröfum um notkun endurnýjanlegrar orku. Allar virðiskeðjur munu styðja við hringrásarferla næringarefna til ræktunar.
Innleiðing verður tryggð með virkri þátttöku bænda allt frá upphafi verkefnisins. Hinar nýju virðiskeðjur verða síðan sannreyndar (e. replicator sites), að hluta eða í heild, við ólíkar aðstæður þ.e. á Íslandi, Ítalíu og í Póllandi. Efnahags-, umhverfis- og félagslegur ávinningur verkefnisins verður kynntur víða, einkum til hagaðila í landbúnaði og til stjórnvalda. Þróaðar verða aðgengilegar lausnir og verkfæri á netinu til að aðstoða og hvetja landbúnaðargeirann í Evrópu til að velja vænlegar leiðir til að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu sem og framleiðslu endurnýjanlegrar orku.
Fyrr á þessu ári fékk Orkídea, í félagi við First Water ehf. (áður Landeldi ehf.), Ölfus Cluster, Bændasamtökin og SMJ í Danmörku, LIFE styrk úr sjóðum ESB til uppsetningar á áburðar- og lífgasverksmiðju í Þorlákshöfn. Heildarstyrkurinn þar hljóðaði upp á um milljarð ISK. Með þessum árangri er sýnt að einbeitt sókn í sjóði ESB getur verið mikil lyftistöng fyrir íslenskt samfélag til sjávar og sveita.
Einn af fyrstu traktorum sem gengur fyrir metani úr lífgasi (úr kúamykju) kom fram á sjónarsviðið árið 2015. Lífgasver í bakgrunni. Mynd: Grist.org