10. nóvember 2022

Orkugerðin í Flóa heimsótt

Árni stjórnarformaður (t.v.) og Ólafur framkvæmdastjóri Orkugerðarinnar

Við hjá Orkídeu heimsóttum Orkugerðina ehf við Heiðargerði í Flóa á dögunum. Orkugerðin tekur á móti úrgangi frá sláturhúsum og framleiðir úr því kjötmjöl og fitu sem að hluta er flutt út til lífdíselframleiðslu. Kjötmjölið er nýtt til áburðar á afrétti. Ólafur Wernersson er framkvæmdastjóri Orkugerðarinnar. Hann leiddi okkur í gegnum framleiðsluferlana og sýndi okkur helstu tæki verksmiðjunnar. Árni Eiríksson, stjórnarformaður, oddviti Flóahrepps og nýbakaður stjórnarmaður í verkefnisstjórn Orkídeu, skipulagði heimsóknina og var með í för ásamt Stefáni Geirssyni í atvinnumálanefnd Flóahrepps.

Tekið er við úrgangi frá sláturhúsum og kjötvinnslum í hráefnismóttöku verksmiðjunnar sem er innandyra. Í móttökunni er hráefnunum sturtað í síló, sem síðan matar sjóðara eftir að hráefnið hefur verið hakkað. Allt efni úr hráefnismóttökunni fer í gegnum sjóðarana fyrst eða aðra sótthreinsun. Í sjóðurunum er nánast allt vatn soðið úr hráefninu og það hitað undir þrýstingi. Fita úr framleiðslunni er notuð til kyndingar. Þar fer gufa sem er um 60-70% af þunga hráefnisins upp í lofthreinsibúnaðinn. Fitan og mjölið eru síðan skilin að í pressu. Fita fer síðan í díkanter skilju til hreinsunar og þaðan á upphitaða birgðatanka. Mjölið fer inn á kvörn og þaðan inn á mjölsíló til geymslu og loks til pökkunar í sekki. Í verksmiðjunni eru tveir sjóðarar.

Framleiðslan hefur aukist jafnt og þétt og munar mest um aukin viðskipti við ýmis sláturhús (alifuglar, svín) í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.  Nú er stefnt að stækkun verksmiðjunnar og við ræddum ýmsar leiðir til nýta úrgangsstrauma frá verksmiðjunni.

Að heimsókn lokinni fórum við á fund á skrifstofu Flóahrepps með Árna og Stefáni og spjölluðum um framtíðarplön í atvinnuuppbyggingu Flóans og möguleika á frekari uppbyggingu í nágrenni Orkugerðarinnar ásamt mögulegri nýtingu fyrirtækja á orku- og efnastraumum frá verksmiðjunni. Takk fyrir skemmtilega og fræðandi heimsókn!

Fleiri fréttir

Allar fréttir
31. janúar 2023
Opnað fyrir umsóknir í vorúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands
Lesa meira
13. janúar 2023
Pure North í Hveragerði í forystu um endurnýtingu á plasti
Lesa meira
12. janúar 2023
Níu teymi valin í hraðalinn Sóknarfæri í nýsköpun
Lesa meira
11. janúar 2023
LiveFood í Hveragerði í startholunum
Lesa meira