7. febrúar 2022

Sifmar ehf/Krakkakropp tilnefnd til nýsköpunarverðlauna

Arnkell, Sigrún Anna og Vaka Mar hjá Sifmar ehf. Mynd: Orkídea

Krakkakropp er verkefni sem tók þátt í Startup Orkídea árið 2021 og hlaut síðar styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (NSN) þar sem haldið var áfram að vinna með verkefnið. Ólafur Reykdal, sérfræðingur hjá Matís, leiðbeindi. Sex verkefni styrkt af NSN hafa nú verið tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands og er Krakkakropp eitt þeirra. Verkefnið var unnið af Vöku Mar Valsdóttur, Sigrúnu Önnu Magnúsdóttur og Arnkeli Arasyni, nemum í matvælafræði við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Við hjá Orkídeu óskum þeim hjartanlega til hamingju með tilnefninguna!

Í frétt frá Rannís um verkefnið segir m.a.

„Kveikjan að verkefninu var stórt gat á markaði, en sem stendur er enginn tilbúinn íslenskur barnamatur fáanlegur. Á sama tíma hleypur innflutningur á erlendum barnamat árlega á hundruðum tonna. Á Íslandi er til staðar græn orka, unnin með sjálfbærum hætti, hreint vatn, framúrskarandi hráefni og hverfandi notkun varnarefna við grænmetisframleiðslu.

Því höfum við á Íslandi fulla burði til þess að framleiða góðan og heilsusamlegan barnamat fyrir börnin okkar. Hugsjón nemenda var sameiginleg að nýta reynslu sína úr námi til þess að þróa frumgerðir af íslenskum barnamat sem framleiða mætti á ábyrgan hátt með umhverfissjónarmið og hollustu í fyrirrúmi. Lýðheilsa barna er brýnt vandamál en u.þ.b. fjórðungur íslenskra barna mælist yfir kjörþyngd. Mikilvægt er því að bregðast við með hollum og hentugum lausnum fyrir barnafjölskyldur.

Þá hefur matarsóun gríðarlega mikil áhrif á loftslagsbreytingar, en um 45% grænmetis heimsins er talið fara spillis. Í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna þróuðu nemendur barnamat úr m.a. grænmeti sem ýmist er of smátt, of stórt, bogið eða brotið. Slíkt grænmeti myndi ekki nýtast í hefðbundnar söluvörur en er að öðru leyti í fullkomnum gæðum og því tilvalið til framleiðslu á maukuðum og þurrkuðum barnamat. Að verkefni loknu stóðu eftir fimm frumgerðir af Krakkakreistum – hentugum barnamat í pokum og þrjár frumgerðir af Krakkakroppi – barnanasli sem bráðnar í munni.

Þá hafa nemendur í kjölfar verkefnisins nú stofnað fyrirtækið Sifmar ehf. Fyrirtækið hefur einnig hlotið fleiri styrki, nemendur tekið þátt í viðskipta-og markaðshröðlum og hefur Landsvirkjun fjárfest í fyrirtækinu. Á döfinni hjá Sifmar ehf. er áframhaldandi fjármögnunarferli svo bjóða megi upp á öruggari og umhverfisvænni framleiðslu hér á landi. Það má því með sanni segja að íslensk framleiðsla, sjálfbærni, lýðheilsa barna, spornun gegn matarsóun, jákvæð umhverfisáhrif, landbúnaður og tækniþróun séu allt málefni sem verkefnið snertir og helst í hendur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Kveikjan að verkefninu var stórt gat á markaði, en sem stendur er enginn tilbúinn íslenskur barnamatur fáanlegur. Á sama tíma hleypur innflutningur á erlendum barnamat árlega á hundruðum tonna. Á Íslandi er til staðar græn orka, unnin með sjálfbærum hætti, hreint vatn, framúrskarandi hráefni og hverfandi notkun varnarefna við grænmetisframleiðslu.“

Fleiri fréttir

Allar fréttir
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira
3. maí 2024
Mikil nýsköpun í ræktun salats í Lambhaga
Lesa meira
26. apríl 2024
Kornræktarfélag Suðurlands stofnað
Lesa meira
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira