17. september 2024

Staðbundin orkuframleiðsla í landbúnaði Evrópu

Lóðréttar sólarsellur á Jótlandi, soya plöntur í forgrunni

Þátttakendur í ESB verkefninu Value4Farm, sem Orkídea tekur þátt í, hittust  11-12 september sl. á í útibúi og tilraunastöð Árósarháskóla við Viborg á Jótlandi til að ræða framgang og áskoranir verkefnisins. Þátttakendur munu m.a. þróa sýnidæmi í þremur staðbundnum virðiskeðjum sem byggja á framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Þessi sýnidæmi verða í Danmörku, Ítalíu og Belgíu.

Sýnidæmið í Danmörku er tilraunasvæði sem sameinar sólarorkuvinnslu með lóðréttum sólarsellum og hefðbundnum hallandi sellum til samanburðar. Umhverfis sellurnar er ræktað hausthveiti, grassmári og soyaplöntur sem verða metin bæði í uppskeru og gæðum. Víða í Evrópu er áhugi á að samnýta ræktunarland til akuryrkju og raforkuframleiðslu með sólarsellum. Einnig mun VALUE4FARM nota grassmára til vinnslu á próteinþykkni í lífmassaveri, en sú vinnsla myndar hliðarstraum fyrir lífgas. Við fengum tækifæri til að skoða sólarsellurnar á ræktunarlandinu, lífgasverksmiðjuna og lífmassaverið sem Árósarháskóli nýtir við vinnuna í Value4Farm verkefninu (sjá myndir neðar).

Ítalska sýnidæmið leggur áherslu á þrjár rannsóknir sem miða að því að stuðla að víðtækri innleiðingu sjálfbærra landbúnaðarkerfa sem samþætta endurnýjanlega orku og matvælaframleiðslu. Þrjú sýnidæmi með tveim sviðsmyndum hvert verða skoðuð: i) hvernig á að framleiða þá raforku sem þarf til að auka hlut metans í lífgasi (og þar með arðsemi) og ii) hvernig hægt er að auka og hámarka beislun sólarorku á miðlungs og stórum skala (>20 ha) til að auka framboð á endurnýjanlegri orku og staðbundinni notkun hennar í landbúnaði.

Belgíska sýnidæmið skiptist í 3  meginþætti: i) Uppsetningu á skilvirkri tveggja þrepa örgastúrbínu sem miðar að logalausum bruna, miklum sveigjanleika og lítilli losun CO2, ii) Hreinsun á lífgasi í lífmetan í staðbundinni lífmetanvinnslu. Kostnaður og hagkvæmni verður einnig borin saman við tvær aðrar leiðir til hreinsunar á lífgasi (m.a. himnusíun) og iii) Í framhaldinu verður lífmetanið nýtt í metan dráttarvél, sem mun leiða til minnkunar á kolefnisspori. Notkun metans í vélum mun væntanlega einnig draga úr orkukostnaði, gefa færi á samanburði á kostnaði við díselnotkun og styðja við sjálfbærni og staðbundna framleiðslu á eldsneyti.

Lífgasver Árósarháskóla á Jótlandi, þar eru gerðar ýmsar tilraunir með gashæfni hliðarstrauma í landbúnaði m.a. heyfyrninga.

Hér að ofan er mini-lífgasver Árósarháskóla, í þessari einingu eru gerðar tilraunir með að auka metanhluta lífgassins með því að dæla inn vetni í ferlinu.

Í tilraunastöðinni er einnig að finna lífmassaver (e. Biorefinery) þar sem prótein til svínafóðurs er unnið úr ræktuðum plöntum. Hratið er notað í lífgasframleiðslu.

Grasprótein til íblöndunar í svínafóður.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
20. desember 2024
Bændablaðið með frétt og fréttaskýringu um lífgas- og áburðarver
Lesa meira
12. desember 2024
Starf Orkídeu framlengt um 3 ár
Lesa meira
26. nóvember 2024
Kúabúið í Flatey á Mýrum heimsótt
Lesa meira
25. nóvember 2024
Heimsókn í Mýrdalshrepp
Lesa meira