14. september 2023

Starfsfólki Orkídeu boðið á ýmsar alþjóðlegar ráðstefnur í september

Sveinn og Silvia Gaiani, framkvæmdastjóri ráðstefnunnar InnoFood, prófessor við Ruralia stofnun Háskólans í Helsinki í Seinajoki.

Framkvæmdastjóra Orkídeu, Sveini Aðalsteinssyni, var boðið að halda erindi á ráðstefnu InnoFood í Finnlandi um nýsköpun í matvælaframleiðslu. Ráðstefnan fór fram 7. – 8. sept. sl. Margar áhugaverðar tengingar mynduðust við fólk á sviði stoðkerfis nýsköpunar og í rannsóknageiranum í Finnlandi og víðar sem munu nýtast okkur í framtíðinni. Ráðstefnan fór fram í Seinajoki, háskóla- og nýsköpunarborg, sem er í hjarta matvælaframleiðslu Finna.

Meðal annars náðust tengingar við starfsmenn vísisjóða á sviði matvæla, rannsóknaraðila á sviði sjálfbærni í landbúnaði o.fl. Finnar, eins og fleiri Norðurlandaþjóðir, keppast við að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu og að halda eftir stærri hluta virðiskeðju matvæla heima í héraði. Eins að gera verðmæti úr lítt eða ekki nýttum auðlindum sem landið og landbúnaður gefa á norðurslóðum.

Á sama tíma var Helgu Gunnlaugsdóttur, rannsóknar- og þróunarstjóri Orkídeu, boðið að taka þátt í lokaráðstefnu NextGenProteins. Matís hefur undanfarin 4 ár leitt stórt ESB verkefni þar sem nýprótein (e. Alternative proteins) hafa verið rannsóknarefnið. Rannsóknir á nýjum prótein gjöfum hafa vakið athygli hér á landi og nægir að nefna fyrirtækið VAXA Impact á Hellisheiði sem dæmi um árangur í þeim efnum. Svanhvít Svavarsdóttir, matvælaráðherra var með í för og hélt opnunarerindi á ráðstefnunni. Virkilega áhugavert fyrir fulltrúa Orkideu að fá tækifæri til að taka þátt í þessari lokaráðstefnu NextGenProtein. Margir spennandi fyrirlestrar og veggspjöld um þetta málefni voru á dagskrá og munu nýtast okkur í áframhaldandi starfi.

Einnig sótti Magnús Yngvi Jósefsson, verkefnastjóri Grænna iðngarða hjá Orkídeu, árlega ráðstefnu bresku stjórnendaakademíunnar sem að þessu sinni var haldin í Brighton á suðurströnd Englands. Rauði þráður ráðstefnunnar var sjálfbærni og umbreytingar á óvissutímum. Magnús flutti þar erindi um hvernig virkja mætti sköpunarkraft í verkefnateymum. Erindið hlaut góðar undirtektir en stór hluti erinda og annarra viðburða vörðuðu hvernig takast skuli á við áskoranir í umhverfis og loftslagsmálum frá sjónarhóli stefnumótunar og stjórnunar.

Það er til marks um vaxandi veg Orkídeu að starfsfólki sé boðin þátttaka á alþjóðlegum ráðstefnum og að sú þátttaka sé verkefninu að kostnaðarlausu.

 

Svanhvít matvælaráðherra hélt erindi við opnun NextGenProtein

Mörg áhugaverð erindi voru flutt á bresku stjórnendaráðstefnunni í Brighton

Fleiri fréttir

Allar fréttir
20. júní 2025
Orkídea og ON í samstarf um nýsköpun í Jarðhitagarðinum
Lesa meira
19. júní 2025
Ársskýrsla Orkídeu 2024 komin út
Lesa meira
16. júní 2025
Bændablaðið segir frá ráðstefnu Orkídeu og Eims um lífgas og áburð
Lesa meira
6. júní 2025
Vel heppnuð ráðstefna Orkídeu og Eims um lífgas og áburðarframleiðslu
Lesa meira