12. desember 2025

Sunnlenskir bændur heimsækja Förka lífgas- og áburðarverið í Færeyjum

Hópurinn: F.v. Knútur (Friðheimar), Arnar Bjarni (Gunnbjarnarholt), Óttar (Miklaholt), Þórarinn (Spóastaðir), Axel (Espiflöt), Sigert (Hoyvíksgarður), Helgi (Bláskógabyggð) og Ásta (Bláskógabyggð). Mynd: SvA

Orkídea, í samvinnu við Lífgas ehf í Bláskógabyggð, skipulögðu skoðunarferð til Færeyja í byrjun desember til að kynna sér framleiðslu og notkun á lífgasi og líf-áburði í Færeyjum. Hópurinn samanstóð af kúa- og garðyrkjubændum í uppsveitum Árnessýslu og fulltrúum Bláskógabyggðar þar sem ætlunin er að lífgas- og áburðarver rísi og nýti kúamykju og garðyrkjuúrgang til að búa til orku og líf-áburð. Verkefnið er hluti af Value4Farm ESB verkefninu sem Orkídea tekur þátt í en verkefnið fjallar um staðbundna orkuframleiðslu og -notkun í landbúnaði.

Við heimsóttum Förka lífgas- og áburðarverið sem er staðsett í útjaðri Þórshafnar í Færeyjum. Súsanna Poulsen hjá SMJ verkfræðistofunni í Færeyjum aðstoðaði okkur við skipulagningu þeirrar heimsóknar. SMJ er samstarfsaðili Orkídeu í Terraforming LIFE verkefninu sem hyggst reisa lífgas- og áburðarver í Þorlákshöfn og nýta fiskamykju frá landeldi FirstWater ehf og fleiri landeldisfyrirtækja á Suðurlandi. Einnig verður tekið á móti svínamykju frá svínabændum á Kjalarnesi. Auk SMJ, FirstWater og Orkídeu eru Bændasamtökin og Ölfus Cluster þátttakendur í Terraforming LIFE verkefninu.

Fróði Mortensen, rekstrarstjóri Förka lífgas- og áburðarversins, tók á móti okkur og fór yfir sögu versins og lífgas- og áburðarferlið. Förka var tekin í notkun árið 2021 og er í eigu fiskeldisfyrirtækisins Bakkafrost sem rekur sjókvíaeldi á laxi í Færeyjum og Skotlandi. Verið tekur á móti um 40 þús. tonnum af fiskiúrgangi frá laxeldi fyrirtækisins og kúamykju frá færeyskum bændabýlum. Um 1/3 hluti innlagnar er fiskiúrgangur og fiskamykja frá ferskvatnseldi (seiði) fyrirtækisins og um 2/3 hluti kúamykja. Einnig er tekið á móti lífrænum úrgangi frá veitingastöðum í nágrenninu. Tekjur fyrirtækisins koma einkum frá sölu á rafmagni og hita til samfélagsins. Flutningabílar Förka sækja kúamykju til bænda og afhenda um leið unninn lífáburð frá verinu, hvorttveggja er bændum að kostnaðarlausu. Sá hluti lífáburðar sem bændur nýta ekki er dreift á raskað land t.d. í kringum vegi í Færeyjum. Um 14 kúabændur eru í Færeyjum og eru allir þeir bændur með samning við verið, að einum undanskildum, sem býr í talsverði fjarlægð frá verinu. Rekstur versins hefur gengið nokkuð vel en verið nýtur ekki styrkja frá landsstjórn Færeyja né fær það greiddar kolefniseiningar. Orkuverð til versins er tengt olíuverði en um helmingur raforku Færeyinga kemur frá díselrafstöðvum, hinn helmingurinn kemur frá Förka og vindmyllum sem finna má víða á eyjunum.

Við heimsóttum einnig Sigert Paturson, bónda í Hoyvíksgarði í nágrenni Þórshafnar. Sigert og fjölskylda búa þar með u.b.b. 60 mjólkurkýr (einn mjaltaróbót) auk geldneyta og sauðfjár. Við skoðuðum fjós og fjárhús Sigerts og spurðum hann spjörunum úr um reynslu hans af líf-áburði frá Förka lífgas- og áburðarverinu. Sigert sagði að áburðurinn frá verinu væri góður á túnin en bændur fá viðbótarnæringu vegna innlagnar á fiskaúrgangi í lífgasferlinu, miðað við að dreifa kúamykjunni beint, einkum köfnunarefni og fosfór. Sigert hefur minnkað verulega innkaup á tilbúnum áburði, með meðfylgjandi sparnaði en skv. Fróða rekstrarstjóra Förka, ættu færeyskir bændur að geta sleppt nánast öllum kaupum á tilbúnum áburði á tún sín að undanskildum kalí áburði. Bændur vilja þó sjá hvernig það kemur út að minnka gjöf á tilbúnum áburði og gera það því í smáum skrefum. Mikið er undir. Í einstaka tilvikum hjá bændum hefur borið á gulnun á afmörkuðum hluta túna eftir gjöf á lífáburði og talið er það sé vegna „overlapping“ á gjöf þ.e. tvöföldun á gjöf á samskeytum í dreifingarrákum/-ferlum.  Fyrirhugað er að gera fleiri efnagreiningar á lífáburðinum á næstunni til að skoða hvort saltinnihald áburðarins sé of mikið. Viðbótarkostur er að vegna sótthreinsunar á lífáburðinum þá eru illgresisvandamál í túnum nánast úr sögunni miðað við dreifingu á ómeðhöndlaðri kúamykju.

Sigert og fjölskylda eru höfðingar heim að sækja og buðu hópnum í kaffi og skerpukjöt sem var mjög ánægjulegt og skemmtilegt.

Kærar þakkir Sigert, Súsanna og Fróði fyrir frábærar mótttökur!

Förka lífgas- og áburðaverið í Færeyjum. Mynd: SMJ

Fróði Mortensen (fyrir miðri mynd) útskýrir ferlið hjá Förka.

Flutningabíll Förka (mykjubíll) sem fer til bænda, sækir mykju og afhendir lífáburð.

Ljósavélin sem gengur fyrir lífgasi og framleiðir rafmagn og hita fyrir Færeyinga. Afköst vélarinnar er um 1500 KWe eða um 2000 hestöfl.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
12. desember 2025
Sunnlenskir bændur heimsækja Förka lífgas- og áburðarverið í Færeyjum
Lesa meira
21. nóvember 2025
Ný ör-túrbínutækni við nýtingu lífgass í Value4Farm verkefninu – video
Lesa meira
19. nóvember 2025
Fróðleg skoðunarferð með sunnlenskum bændum um lífgas- og áburðarver í Belgíu
Lesa meira
4. nóvember 2025
Stefán Friðrik til SASS og Orkídeu
Lesa meira