30. október 2020

Sveinn og Helga stýra Orkídeu

Sveinn Aðalsteinsson og Helga Gunnlaugsdóttir munu stýra nýsköpunarsamstarfsverkefninu Orkídeu.

Gengið hefur verið frá ráðningu á Sveini Aðalsteinssyni og Helgu Gunnlaugsdóttur sem framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra Orkídeu, sem er samstarfsverkefni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landsvirkjunar, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýsköpun á Suðurlandi.

Sveinn Aðalsteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunarverkefnisins Orkídeu, en hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum s.s. í stjórn Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands og tekið þátt fjölmörgum verkefnum á sviði náttúrunýtingar og ylræktar. Sveinn starfaði áður sem m.a. framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem sérfræðingur og framkvæmdastjóri um uppbyggingu ylræktar á Hellisheiði, framkvæmdastjóri Starfsafls starfsmenntasjóðs, skólameistari Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Sveinn útskrifaðist með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands, doktorspróf, Ph.D., í plöntulífeðlisfræði frá Lundi í Svíþjóð, docent titil við sænska landbúnaðarháskólann og M.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og stefnumótun.

Ég tel að aukin áhersla á nýsköpun á Suðurlandi tali beint inn í þá landkosti og mannauð sem svæðið býður upp á,“ segir Sveinn sem er spenntur að takast á við ný og spennandi verkefni.
Áhugi samfélagsins á nýtingu grænnar orku til matvælaframleiðslu hefur aukist mikið sem er mjög ánægjulegt. Hér á Suðurlandi er mikil reynsla af hátæknimatvælaframleiðslu og öflugir frumkvöðlar sem ég hlakka mjög til að vinna með. Okkur eru allir vegir færir.

Helga Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin sem rannsókna- og þróunarstjóri Orkídeu, en hún hefur verið gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands frá 2012. Helga hefur starfað hjá Matís í 14 ár þar sem hún hefur tekið þátt í fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sem tengjast nýsköpun og rannsóknum á sviði matvælaframleiðslu og lýðheilsu. Helga er með B.Sc. gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. gráðu í matvælafræði frá Tækniháskólanum í Nova Scotia í Kanada og doktorspróf í matvælaverkfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Ég hef mikinn áhuga á að gera íslenska matvælaframleiðslu umhverfisvænni með nýtingu grænnar orku og stuðla að nýsköpun og verðmætasköpun á sviði matvælaframleiðslu með sjálfbærni og hringrásarhagkerfið að leiðarljósi og hlakka mikið til að beita þekkingu minni og reynslu við að takast á við ný verkefni,“ segir Helga.

„Ég tel að Ísland eigi mikla möguleika á að takast á við samfélagslegar áskoranir sem tengjast fæðuöryggi, sjálfbærni og umhverfismálum með aukinni nýtingu á grænni orku og vil leggja mitt að mörkum til að svo megi verða.

Nafnið kemur til af enska orðinu yfir hugmynd og orku Heiti samstarfsverkefnisins, Orkídea, vísar bæði til grænu orkunnar og til þeirrar hugmynda – ídea á ensku – sem spretta upp í frjóum farvegi, en það snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun. Eitt meginmarkmiða samstarfsins er að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Suðurlandi og gera framleiðsluna umhverfisvænni með nýtingu á grænni orku sem býr þannig til tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur til að vera samkeppnishæfir á alþjóðamarkaði. Ætlunin er að stuðla að aukinni nýsköpun og rannsóknum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu með öflugu samstarfi við háskóla, rannsóknastofnanir og atvinnulíf og fjölga möguleikum svæðisins til að takast á við áskoranir samtímans og gera Suðurland leiðandi þegar kemur að samspili orku, umhverfis og samfélags.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
26. nóvember 2024
Kúabúið í Flatey á Mýrum heimsótt
Lesa meira
25. nóvember 2024
Heimsókn í Mýrdalshrepp
Lesa meira
18. nóvember 2024
Sólsker á Hornafirði reykir makríl og fleira góðgæti
Lesa meira
13. nóvember 2024
Sveitarfélagið Hornafjörður heimsótt
Lesa meira