28. nóvember 2023

Tariello vinnur að spennandi kjötafurðum í Þykkvabæ

Veronique, Roberto (frá Tariello) og Helga (frá Orkídeu)

Frumkvöðulinn Roberto Tariello rekur Tariello kjötvinnsluna í Þykkvabæ. Tariello og Orkídea fengu 13,5 mkr styrk úr Matvælasjóði (MVS) í ár og er markmið verkefnisins að þróa hágæða kjötvörur úr hrossakjöti, vannýttri auðlind í okkar landbúnaði. Tariello leggur metnað sinn í hágæðavöru sem byggjast á ítölsku matarhandverki en hann nýtir einvörðungu íslenskt hágæða hráefni í framleiðslu sína. Við heimsóttum Roberto í síðustu viku og fengum að smakka á frumgerðum af vörunum sem hann er að þróa.

Annars vegar er um er að ræða kryddað, gerjað og loftþurrkað hrossakjöt sem líkist svokölluðu „Bresaola“, sem er unnið við stýrðar framleiðsluaðstæður. Smakkaðist afar vel, mikið sælgæti.

Hins vegar er um ræða hrossa-salami, vara sem einnig er unnin á svipaðan hátt við stýrðar aðstæður. Smakkaðist einnig mjög vel. Hið svokallaða hrossakjötsbragð sem margir tengja við vörur úr þessu hráefni var víðs fjarri í þessum afurðum.

Vöruþróunarverkefnið gengur vel og samkvæmt áætlun en Roberto heldur áfram að bæta framleiðsluferlana og gera prófanir á afurðunum. Tariello er eini aðilinn á íslenskum markaði sem byggir framleiðslu sína á suður-evrópskum tímafrekum og nákvæmum framleiðsluferlum fyrir kryddaðar, gerjaðar og loftþurrkaðar kjötvörur sem falla undir skilgreiningu matarhandverks.

Sala á þessum hrossakjötsafurðum er ráðgerð í lok næsta árs að lokinni umfangsmikilli vöruþróun og nauðsynlegum gæðaprófunum á frumgerðum afurða sem og markaðsstarfi með stuðningi MVS við verkefnið.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
16. júní 2025
Bændablaðið segir frá ráðstefnu Orkídeu og Eims um lífgas og áburð
Lesa meira
6. júní 2025
Vel heppnuð ráðstefna Orkídeu og Eims um lífgas og áburðarframleiðslu
Lesa meira
30. maí 2025
Lífgasráðstefnan 5. júní – dagskrá
Lesa meira
27. maí 2025
Orkídea og samstarfverkefni með vel heppnaðan viðburð á Iceland Innovation Week
Lesa meira