15. febrúar 2023

Umsóknarfrestur í fjölda sjóða nú í febrúar og mars

Umsóknarfrestur í marga sjóði sem styrkja frumkvöðlastarf og nýsköpun er núna í lok febrúar eða miðjan mars. Þar má nefna:

Matvælasjóður

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

Opið er fyrir umsóknir í sjóðinn til 28. febrúar nk. Allar upplýsingar um sjóðinn er að finna hér

Tækniþróunarsjóður

Tækniþróunarsjóður er með nokkra undirsjóði sem allir hafa umsóknarfrest til 15. mars nk.:

Sproti er fyrir ung nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla og er ætlaður til að styðja við verkefni á byrjunarstigi.

Vöxtur og Sprettur er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Styrkur getur numið allt að 20 milljónum króna samanlagt á tveimur árum, þó ekki meira en 10 milljónum króna á hvoru ári.

  • Vöxtur er ætlaður til að styrkja þróunarverkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar. Hámarkstyrkur getur numið allt að 50 milljónum króna á tveimur árum, þó ekki meira en 25 milljónum króna á hvoru ári.
  • Sprettur er öndvegisstyrkur innan Vaxtar. Hámarksstyrkur getur numið allt að 70 milljónum króna á tveimur árum, þó ekki meira en 35 milljónum króna á hvoru ári

Markaður er eingöngu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem verja að lágmarki 10% af rekstrargjöldum til rannsókna- eða þróunarstarfs samkvæmt síðasta reikningsári. Markaður er markaðsstyrkur til fyrirtækja sem skiptist í tvo ólíka flokka: Markaðsþróun og Markaðssókn. Þessum flokkum er ætlað að styðja við fyrirtæki á mismunandi stigum í undirbúningi afurðar á markað.

Þar að auki er Fræ sem er undirbúningsstyrkur til ungra frumkvöðlafyrirtækja eða einstaklinga og er sniðinn að verkefnum á hugmyndastigi eða á frumstigi í þróun afurðar og Þróunarfræ sem er forkönnunarstyrkur til ungra frumkvöðlafyrirtækja og einstaklinga til að ráðast í þróunarsamvinnuverkefni. Þessir styrkir eru ætlaðir fyrirtækjum 5 ára og yngri og til einstaklinga/frumkvöðla. Alltaf er opið fyrir umsóknir. Næst verða umsóknir teknar fyrir 15. febrúar 2023. Allar umsóknir sem berast eru teknar fyrir og úthlutun tilkynnt að lágmarki tvisvar á ári.

Þess má geta að Tækniþróunarsjóður heldur kynningarfund um sjóði og skattafrádrátt vegna rannsókna og þróunarstarfs fimmtudaginn 16. feb. nk.

Kría

Kría- sprota- og nýsköpunarsjóður auglýsir eftir umsóknir um fjárfestingu. Umsóknarfrestur er til og með 28. apríl 2023.  Allar nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér.

Vinnumálastofnun/félags-og vinnumarkaðsráðuneytið

auglýsir styrki til atvinnumála kvenna árið 2023 lausa til umsóknar. Heildarfjárhæð styrkja að þessu sinni eru kr. 40.000.000 og er hámarksstyrkur kr. 4.000.000.

Skilyrði er að verkefnið/hugmyndin falli að eftirfarandi skilyrðum.

  • Verkefnið sé í meirihluta eigu konu/kvenna (51%) og stjórnað af konu.
  • Verkefnið feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.
  • Verkefnið feli í sér atvinnusköpun til frambúðar.
  • Viðskiptahugmynd sé vel útfærð.
  • Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar (600.000), ásamt styrkjum til markaðssetningar og vöruþróunar að hámarki 4.000.000.

Umsóknarfrestur er frá 1.febrúar til og með 28.febrúar og skal sækja um rafrænt á heimasíðunni www.atvinnumalkvenna.is

 

Fleiri fréttir

Allar fréttir
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira
8. apríl 2024
Skoðunarferð á lífgasstöðvar í Belgíu
Lesa meira
30. mars 2024
Fyrstu niðurstöður Value4Farm
Lesa meira
11. mars 2024
Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum
Lesa meira