16. desember 2025

Uppfærð stefna ESB um samkeppnishæft og sjálfbært lífhagkerfi (bioeconomy)

Uppfærð stefna Evrópusambandsins um samkeppnishæft og sjálfbært lífhagkerfi (bioeconomy) var formlega birt 27. nóvember síðastliðinn. Þar leggur sambandið línurnar að hagkerfi sem styður við þróun sjálfbærra lausna og verðmætasköpun úr lífauðlindum. Þessu mun fylgja fjármagn og stuðningur frá ýmsum stofnunum Evrópusambandsins. Með lífhagkerfi er vísað í vörur, þjónustu, vísindi og tækniframfarir sem styðja við framþróun í landbúnaði, sjávarútvegi, skógrækt og fiskeldi t.d. því að vinna verðmæti úr ómeðhöndluðum og meðhöndluðum lífmassa og þróun hliðarafurða úr úrgangi eða ferlum í framleiðslugreinum sem byggja á lífrænum auðlindum. Framleiðsla á líforku, lífáburði og lífkoltvísýringi er augljós hluti lífhagkerfis en sömuleiðis nýsköpun og nýnæmi í fæðuframleiðslu, erfðarannsóknir og vinnsla og verðmætasköpun úr lífefni ýmiskonar.

Evrópusambandið sér fyrir sér nýjar virðiskeðjur sem þjónusta lífiðnað af ýmsum toga, nýjar vörur og vöruflokkar munu líta dagsins ljós og miklar framfarir verða í vísindum og tækni sem varðar skilvirka hagnýtingu og því að auka verðmæti lífauðlinda. Hringrás og sjálfbærni eru þar leiðarljós lífhagkerfis þar sem leitast er við að fullnýta lífefni þ.m.t. þá hliðarstrauma sem verða til í framleiðsluferlum.

Orkídea hefur að markmiði að styðja við orkutengda nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni sem og að stuðla að þróun hringrásarhagkerfis og grænna iðngarða á Suðurlandi. Þó Ísland búi ekki að formlegri stefnu um uppbyggingu lífhagkerfis þá eru ýmis verkefni skref á þeirri braut t.d. tvö verkefni sem Orkídea tekur þátt í og sem eru styrkt af Evrópusambandinu. Það eru verkefnin Value4Farm og Terraforming LIFE sem bæði eru mikilvægur liður í þróun lífhagkerfis á Íslandi og hafa nú þegar orðið til mikil verðmæti í hagnýtri þekkingu á úrvinnslu lífefnisstrauma, í uppbyggingu tengslanets við aðila og stofnanir sem fremst fara í rannsóknum og nýsköpun á lífhagkerfum og í aukinni vitund um þann ávinning sem liggur í virðiskeðjum lífauðlinda. Samhliða tekur Matís Iceland þátt í BIO2REG verkefninu sem ætlað er að styðja við innleiðingu lífhagkerfa. Þessi verkefni eru tækifæri til miðlunar á þekkingu og tækifærum í virðiskeðjum lífhagkerfa en eru líka til þess fallinn að leiða til aukins samstarfs á vegferð okkar í átt að lífhagkerfi.

Uppfærð stefna ESB – tengill hér

Fleiri fréttir

Allar fréttir
16. desember 2025
Uppfærð stefna ESB um samkeppnishæft og sjálfbært lífhagkerfi (bioeconomy)
Lesa meira
12. desember 2025
Sunnlenskir bændur heimsækja Förka lífgas- og áburðarverið í Færeyjum
Lesa meira
21. nóvember 2025
Ný ör-túrbínutækni við nýtingu lífgass í Value4Farm verkefninu – video
Lesa meira
19. nóvember 2025
Fróðleg skoðunarferð með sunnlenskum bændum um lífgas- og áburðarver í Belgíu
Lesa meira