Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, skrifar grein í síðasta tölublað Bændablaðsins um vanda garðyrkjubænda vegna hækkandi orkuverðs. Halla Hrund leggur þar til fimm aðgerðir m.a. eflingu Garðyrkjuskólans þannig að hann geti aukið samstarf sitt við Orkídeu á sviði nýsköpunar. Tillögur Höllu Hrundar eru eftirfarandi (Bændabl. 4.tbl.2025):
1. Tryggjum orkuöryggi almennings í lögum: Garðyrkjubændur falla langflestir, ef ekki allir, undir skilgreiningu almennings (eru undir stórnotendamörkum). Með því að tryggja stöðugt framboð raforku til almenna hluta markaðarins, er garðyrkjubændum komið betur í skjól, því stöðugleiki í framboði raforku til almennings stuðlar líka að stöðugleika í verði.
2. Endurskoðum eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja: Rík samfélagshugsun hefur hingað til einkennt orkumál á Íslandi. Í dag sjáum við samkeppnisumhverfi orkumarkaða hins vegar taka yfir. Stefna Landsvirkjunar kveður eingöngu á um að hámarka eigi hagnað. Víkka mætti eigendastefnuna til að styðja í bland við markmið ríkisins tengd grunnþörfum samfélagsins; líkt og fæðuöryggi. Án slíkra áherslna er alls óvíst að orka frá nýjum virkjunum skili sér endilega í hagkvæmu verði til garðyrkjunnar.
3. Styrkjum orkusparandi búnað: Evrópulöggjöf setur kvaðir á garðyrkjubændur þegar kemur að orkunýtni búnaðar sem getur verið íþyngjandi fjárfesting að uppfæra. Á móti minnkar slíkt orkunotkun og þar með rekstrarkostnað sem eykur samkeppnishæfni geirans í heild. Nýta mætti Orku- og loftslagssjóð til að styrkja kostnað við nýjan búnað að hluta til að ná þessu fram. Einnig mætti skoða kosti þess að styrkja búnað fyrir staðbundna orkuframleiðslu, s.s. sólarorku.
4. Endurskoðum niðurgreiðslu flutnings- og dreifikostnaðar: Í dag er hluti af flutnings- og dreifikostnaði niðurgreiddur af ríkinu. Skoða mætti leiðir til þess að auka fjármagn til ráðstöfunar hér enn frekar.
5. Eflum menntun og nýsköpun: Öflug menntun á sviði garðyrkjunnar er verðmæt og getur orðið hornsteinn nýsköpunar í greininni sem gæti skapað tekjuaukandi sóknarfæri. Eflum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og samstarf hans við Orkídeu og fleiri nýsköpunarhraðla sem hafa sérþekkingu á því sviði.