31. október 2023

Um hvað snýst EU verkefnið Value4Farm?

Metangas-drifinn traktor við lífgasver á býli. Mynd: New Holland verksmiðjurnar

Orkídea tekur þátt í ESB nýsköpunarverkefninu Value4Farm sem var hleypt af stokkunum 1. september síðastliðinn. Upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Brussel um miðjan október sl. og sóttu starfsmenn Orkídeu fundinn. Verkefnið snýst um þróun og innleiðingu á lausnum til orkuframleiðslu í landbúnaði, einkum samhæfingu orku- og fæðuframleiðslu. Þróuð verða þrjú sýnidæmi sem taka mið af ólíkum aðstæðum í Evrópu. Value4Farm er samstarfsverkefni 14 aðila frá 10 Evrópulöndum. Framlag Evrópusambandsins til verkefnisins er rúmar 6 milljónir Evra eða um 940 milljónir íslenskra króna.

Á Ítalíu verður sett upp nýstárlegt kerfi til að fanga sólarorku og varðar sýnidæmið aðlögun kerfisins að ræktarlandi. Í Belgíu og í Danmörku er lífgasframleiðsla til skoðunar og þá sérstaklega hvaða lífrænu efnis- og úrgangsstraumar og samsetning þeirra er heppilegust til framleiðslu á lífgasi. Lífgasverksmiðjur eru ekki nýjar af nálinni en nýnæmið í Value4farm felst bæði í skoðun á heppilegum tegundum efnisstrauma og samsetningu þeirra sem og bestun á úrgangs og efnisstraumum til lífgasframleiðslu. Þátttaka Orkídeu felst í að læra af þessum sýnidæmum og sérstaklega að skoða hagkvæmni lítilla lífgasverksmiðja við íslenskar aðstæður.

Value4Farm verkefnið er til 42 mánaða og er ætlað að styrkja sjálfbærni í landbúnaði með því að sannreyna nýjar virðiskeðjur sem tengja saman sjálfbærni í matvælaframleiðslu og endurnýjanlega orkugjafa. Markmiðið er að lágmarka notkun á jarðefnaeldsneyti og helst skipta því út fyrir umhverfisvænni valkosti. Metnaður verkefnisins er að umhverfisvænir orkugjafar geti uppfyllt orkuþarfir og sjálfbærni í landbúnaði með staðbundinni orkuframleiðslu.

Value4Farm er annað verkefnið sem Orkídeu áskotnast úr sjóðum Evrópusambandsins. Fjárhagslegur ávinningur af þátttöku í Orkídeu í Value4Farm eru um €304,000 eða um 44 milljónir íslenskra króna en vart verður metið til fjár sú þekking og það tengslanet sem fylgir þátttöku í verkefninu. Orkídea bindur vonir við að þátttaka í Value4Farm styrki enn frekar nýsköpun í íslenskum landbúnaði og að afurðir verkefnisins verði uppspretta hugmynda og nýsköpunar á Suðurlandi. Magnús Yngvi Jósefsson leiðir aðkomu Orkídeu að verkefninu og áhugasömum er bent á netpóstfangið magnus@orkidea.is

Fleiri fréttir

Allar fréttir
13. september 2024
Starf Orkídeu kynnt á vinnufundi BIO2REG ESB-verkefnisins
Lesa meira
9. ágúst 2024
Value4Farm kynnt á World Biogas Expo/Summit
Lesa meira
8. ágúst 2024
Frostþurrkun ehf: „Óplægður akur tækifæra“
Lesa meira
7. júní 2024
17,7 mkr. styrkur í verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi
Lesa meira