31. október 2023

Um hvað snýst EU verkefnið Value4Farm?

Metangas-drifinn traktor við lífgasver á býli. Mynd: New Holland verksmiðjurnar

Orkídea tekur þátt í ESB nýsköpunarverkefninu Value4Farm sem var hleypt af stokkunum 1. september síðastliðinn. Upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Brussel um miðjan október sl. og sóttu starfsmenn Orkídeu fundinn. Verkefnið snýst um þróun og innleiðingu á lausnum til orkuframleiðslu í landbúnaði, einkum samhæfingu orku- og fæðuframleiðslu. Þróuð verða þrjú sýnidæmi sem taka mið af ólíkum aðstæðum í Evrópu. Value4Farm er samstarfsverkefni 14 aðila frá 10 Evrópulöndum. Framlag Evrópusambandsins til verkefnisins er rúmar 6 milljónir Evra eða um 940 milljónir íslenskra króna.

Á Ítalíu verður sett upp nýstárlegt kerfi til að fanga sólarorku og varðar sýnidæmið aðlögun kerfisins að ræktarlandi. Í Belgíu og í Danmörku er lífgasframleiðsla til skoðunar og þá sérstaklega hvaða lífrænu efnis- og úrgangsstraumar og samsetning þeirra er heppilegust til framleiðslu á lífgasi. Lífgasverksmiðjur eru ekki nýjar af nálinni en nýnæmið í Value4farm felst bæði í skoðun á heppilegum tegundum efnisstrauma og samsetningu þeirra sem og bestun á úrgangs og efnisstraumum til lífgasframleiðslu. Þátttaka Orkídeu felst í að læra af þessum sýnidæmum og sérstaklega að skoða hagkvæmni lítilla lífgasverksmiðja við íslenskar aðstæður.

Value4Farm verkefnið er til 42 mánaða og er ætlað að styrkja sjálfbærni í landbúnaði með því að sannreyna nýjar virðiskeðjur sem tengja saman sjálfbærni í matvælaframleiðslu og endurnýjanlega orkugjafa. Markmiðið er að lágmarka notkun á jarðefnaeldsneyti og helst skipta því út fyrir umhverfisvænni valkosti. Metnaður verkefnisins er að umhverfisvænir orkugjafar geti uppfyllt orkuþarfir og sjálfbærni í landbúnaði með staðbundinni orkuframleiðslu.

Value4Farm er annað verkefnið sem Orkídeu áskotnast úr sjóðum Evrópusambandsins. Fjárhagslegur ávinningur af þátttöku í Orkídeu í Value4Farm eru um €304,000 eða um 44 milljónir íslenskra króna en vart verður metið til fjár sú þekking og það tengslanet sem fylgir þátttöku í verkefninu. Orkídea bindur vonir við að þátttaka í Value4Farm styrki enn frekar nýsköpun í íslenskum landbúnaði og að afurðir verkefnisins verði uppspretta hugmynda og nýsköpunar á Suðurlandi. Magnús Yngvi Jósefsson leiðir aðkomu Orkídeu að verkefninu og áhugasömum er bent á netpóstfangið magnus@orkidea.is

Fleiri fréttir

Allar fréttir
16. júní 2025
Bændablaðið segir frá ráðstefnu Orkídeu og Eims um lífgas og áburð
Lesa meira
6. júní 2025
Vel heppnuð ráðstefna Orkídeu og Eims um lífgas og áburðarframleiðslu
Lesa meira
30. maí 2025
Lífgasráðstefnan 5. júní – dagskrá
Lesa meira
27. maí 2025
Orkídea og samstarfverkefni með vel heppnaðan viðburð á Iceland Innovation Week
Lesa meira