11. mars 2024

Lífgas er vænlegur kostur í orkuskiptum

Hluti lífgasvers í Hollandi. Mynd: Orkídea

Eins og kunnugt er þá tekur Orkídea þátt í Value4Farm verkefninu sem er kostað af rannsóknar og nýsköpunaráætlun Evópusambandsins – Horizon Europe. Verkefninu var hleypt af stokkunum í september 2023 og verða fyrstu afurðir birtar á næstu vikum á vefnum https://value4farm.eu/. Þátttakendur í verkefninu hittust á fjarfundi í síðustu viku.

Value4Farm er svokallað nýsköpunarverkefni eða Innovation Action (IA) þá með áherslu á innleiðingu lausna frekar en á rannsóknir þó vissulega gefi nýsköpunarverkefni oft tilefni til rannsókna. Sem dæmi þá er einn liður í Value4Farm sá að rannsaka og meta hvort framleiðsla á lífgasi sé fýsileg á Íslandi og þá hvort hagaðilar hafi áhuga á slíkri framleiðslu. Lífgas er blanda af einkum  metani og koltvísýringi, en þessar lofttegundir má hreinsa og nýta á ýmsan hátt. Metan má nýta sem orkumiðil og koltvísýring má nýta til ylræktar eða til framleiðslu á drykkjarvöru.

Frumniðurstöður úr fyrsta verkþætti Value4Farm sýna að áhugi á lífgasi er til staðar á Íslandi en hár fjármagnskostnaður, skortur á styrkjum og ívilnunum og skortur á þekkingu á lífgasframleiðslu eru þrándur í götu mögulegra verkefna.

Samkvæmt alþjóðaorkumálastofnuninni IEA þá getur lífgasframleiðsla fullnægt um tuttugu prósentum af heildareftirspurn eftir gasi í orkuframleiðslu á heimsvísu. Þessu fylgir augljós ávinningur fyrir umhverfið. Í mörgum nágrannalöndum okkar er framleiðsla á lífgasi orðin órjúfanlegur hluti af landbúnaðarkerfum og nýtur landbúnaður ýmissa styrkja og ívilnana í því sambandi. Þegar rýnt er í erlendar skýrslur þá má glöggt sjá að framleiðsla á lífgasi er tekið föstum tökum, rýnt er til framtíðar og ýmsar sviðsmyndir teknar til skoðunar. Tækninni fleygir einnig fram t.d., hvað varðar betri þekkingu á samsetningu úrgangs til framleiðslu á lífgasi, bestun á gerlaflóru og þar með gerjunarhæfni lífmassa og síðast en ekki síst aukinni sjálfvirkni og snjallvæðingu lífgasvera. Þegar kemur að stærð og umfangi þá stenst íslenskur landbúnaður vissulega ekki samanburð við landbúnað í flestum nágrannalöndum okkar en með uppgangi í landeldi, ylrækt og mögulega skógrækt verða til efnisstraumar sem nýta mætti til lífgasframleiðslu. Allt að einu þá ætti framleiðsla á lífgasi að vera hluti að áætlunum Íslands til orkuskipta.

Eftir því sem Value4Farm verkefninu vindur fram höldum við áfram að læra af því sem best gerist erlendis og njótum þessa að geta gengið að sérfræðingum, þeim sem fremst fara í þekkingu á líf og lífmetangasframleiðslu í Evrópu.

Slóð á skýrslu alþjóða orkumálastofnunarinnar um framtíðarhorfur í framleiðslu á líf- og lífmetangasi

Slóð á skýrslu um líf- og lífmetangasframleiðslu í Danmörku

Skýrsla um framtíðarhorfur í líf- og lífmetangasframleiðslu í Danmörku

Fleiri fréttir

Allar fréttir
13. maí 2024
Orkídea tekur þátt í tveim viðburðum á Iceland Innovation Week
Lesa meira
3. maí 2024
Mikil nýsköpun í ræktun salats í Lambhaga
Lesa meira
26. apríl 2024
Kornræktarfélag Suðurlands stofnað
Lesa meira
22. apríl 2024
Ársskýrsla Orkídeu 2023 komin út
Lesa meira