9. júní 2022

Hagkvæmnimat fyrir miðlægt frostþurrkunarver

Hagkvæmnimat um rekstur miðlægs frostþurrkunarvers er komið út (sjá neðar) en það var unnið af Hrafnhildi Árnadóttur ásamt systurverkefnunum Orkídeu og Eimi. Markmið þessa verkefnið var að kanna hagkvæmni þess að reisa miðlægt frostþurrkunarver á Íslandi. Frostþurrkun er í dag orðin fremur útbreidd vinnsluaðferð við matvælaframleiðslu víða erlendis, enda þykir hún henta sérstaklega vel til þurrkunar á matvælum vegna þess hversu vel aðferðin varðveitir viðkvæm næringarefni og lífvirk efni þeirra hráefna sem þurrkuð eru. Eiginleikar frostþurrkunar umfram loftþurrkun eru ótvíræðir en aðferðin er þó mun dýrari og orkufrekari verkunaraðferð en hefðbundin loftþurrkun. Á Íslandi er algengast að notast sé við loftþurrkun við þurrkun matvæla en þó hefur umræðan um gagnsemi frostþurrkunar reglulega stungið upp kollinum, ekki síst í tengslum við áform sem nú eru uppi um gífurlegan vöxt smáþörungaframleiðslu.

Árlega senda íslenskir matvælaframleiðendur a.m.k. 28 tonn erlendis til frostþurrkunar. Sterkar vísbendingar eru um að eftirspurnin eftir frostþurrkunarþjónustu muni aukast töluvert á næstu árum meðal innlendra framleiðenda. Miðað við þær hagkvæmnigreiningar sem gerðar voru í þessu verkefni má gera ráð fyrir því að árleg eftirspurn á bilinu 100 til 200 tonn, ætti að geta skilað miðlægu frostþurrkunarveri jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Hér skipta gerð hráefnis, forvinnsla þess, fjárfestingakostnaður tækjabúnaðar og húsakosts jafnt sem nýtingarhlutfall tækja máli til að ná fram hagkvæmni í rekstri. Fullvíst er þó að uppbygging á frostþurrkunarþjónustu yrði afar verðmæt fyrir frumkvöðla í matvæla- og líftæknigeiranum og hefði örvandi áhrif á nýsköpunarumhverfi þeirra. Nýsköpun er lykill að vexti og framþróun fyrirtækja, eykur samkeppnishæfni þeirra og stuðlar þannig að verðmætasköpun í samfélaginu sem eykur hagsæld og eflir þjóðarbúið.

Hér getur þú nálgast skýrsluna.

Fleiri fréttir

Allar fréttir
11. október 2024
Fundur bænda um lífgas og áburð í Bændablaðinu
Lesa meira
2. október 2024
Góður fundur með kúabændum í uppsveitum Árnessýslu um lífgas
Lesa meira
17. september 2024
Staðbundin orkuframleiðsla í landbúnaði Evrópu
Lesa meira
16. september 2024
Uppbyggingarsjóður Suðurlands – umsóknir til 1.okt. nk.
Lesa meira