Orkídea og LbhÍ héldu fjölmenna ráðstefnu um Nýsköpun og tækifæri í matvælaframleiðslu á Selfossi sl. fimmtudag, 8. sept. Milli 70 og 80 manns sóttu ráðstefnuna. Mörg snörp og fróðleg erindi voru haldin og ráðstefnunni sem lauk með panelumræðum. Fjöldi stofnana og samtaka komu að viðburðinum auk Orkídeu og LbhÍ þ.e. Háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti, Háskólinn á Bifröst, Íslandsstofa, Lax-inn fræðslumiðstöð, Matís, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, Samtök smáframleiðenda matvæla og Ölfus Cluster.
Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, setti ráðstefnuna og fór yfir stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Hún sagði að lykilatriðin í sókn Íslands sem matvælalands væru byggð á þekkingu og nýsköpun. Við mættum engan tíma missa og þyrftum að leggja nú þegar af stað og sinna samhliða stóraukinni þekkingaröflun á sviðinu og nýsköpun.
Daði Már Kristófersson, prófessor við HÍ, fór yfir þróun matvælaverðs og tengdi það eftirspurn á heimsmarkaði. Umtalsverð lækkun hefur verið á ylræktuðum tómötum sem er m.a. þakka breyttu neyslumynstri og miklum krafti og nýsköpun í greininni. Hann ræddi einnig þá miklu möguleika sem Ísland hefur í ónýttu ræktarlandi m.a. til kornframleiðslu. Hann, og fleiri fyrirlesarar á ráðstefnunni, ræddu ógnanir sem steðja almennt að matvælaframleiðslu í heiminum m.a. vegna hækkandi orku- og áburðarverðs. Þessar ógnanir geta þýtt mikil tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu.
Esteban Baeza, Company Future Farms Solutions í Almeria, ræddi skýrslu sem hann og fleiri skrifuðu um möguleika Íslands í útflutningi ylræktaðra matvæla. Helstu sóknarfæri felast í fersku salati, ferskum tómötum og hindberjum. Hár flutningskostnaður er þröskuldur sem þarf að yfirstíga en sumar tegundir má flytja með sjófrakt sem lækkar flutningskostnað verulega.
Julián Cuevas González, Department of Agronomy, Almeria University, flutti erindi um möguleika á ræktun ylræktaðra ávaxtatrjáa. Niðurstaða hans er að mangó og papayatré væru vænlegar tegundir til skoðunar því verð á þeim afurðum er hátt á vorin og fyrrihluta sumars auk þess sem ræktunaröryggi eykst til muna við ylræktun.
Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri jarðræktar við LbhÍ, fór yfir tilrauna- og þróunarstarf í kornrækt á vegum LbhÍ. Hann benti á að aðstæður til kornræktar á Íslandi væru góðar en velja þyrfti yrki sem hentuðu löngum en svölum ræktunartíma. Helsta hindrun fyrir frekari útbreiðslu og ræktun korns til manneldis væri skortur á miðlægum vinnslustöðvum korns en fullkominn búnaður til mölunar og annarar vinnslu korns væri dýr og ekki endilega á færi allra kornbænda.
Erna Björnsdóttir, fagstjóri matvæla og náttúruafurða hjá Íslandsstofu, gerði grein fyrir áherslum og stefnu Íslandsstofu í útflutningsmálum. „Vörumerkið“ Ísland þarf að vera þekkt fyrir sjálfbærni og óspillta náttúru til að laða að fyrirtæki og fjárfestingar í matvælaframleiðslu sem öðrum greinum. Með því að segja sögur af tækifærum á Íslandi má laða að fjármagn, nýja þekkingu og tækni t.d. þörungarækt, lóðrétta ræktun o.fl. Það sem þarf er fleira stórhuga fólk í matvælaframleiðslu, fjárfesta með þekkingu og tengsl, að menntun haldi í við þróun, að regluverk og starfsumhverfi mæti nýjum þörfum og kortlagningu á tækifærum og áherslum.
Kolbrún Sveinsdóttir sérfræðingur hjá Matís fór yfir af hverju er nauðsynlegt að horfa til framleiðslu “nýrra” próteina og útskýrði hugtakið „ný-prótein“, en það eru nýir eða lítið þekktir próteingjafar sem hingað til hafa almennt ekki verið nýttir sem mannamatur, t.d. sveppir, þörungar, skordýr og ræktað kjöt. Hún sagði líka stuttleg frá því hvernig þessi „ný-prótein“ eru framleidd og hvernig er hægt að nýta þau í matvælaframleiðslu.
Helga Gunnlaugsdóttir rannsóknar og þróunarstjóri Orkídeu kynnti möguleika í tengslum við lífgas- og áburðarframleiðslu úr lífrænum auðlindum og sýndi dæmi um mismunandi vinnsluferla fyrir lífgas- og áburðarframleiðslu.
Þorvaldur Arnarsson, sem starfar við þróun ferla hjá Landeldi hf í Þorlákshöfn, fór yfir tækifæri í landeldi fiska og rakti kosti þess umfram aðrar aðferðir við fiskeldi. Landeldi hf notar endurnýjanleg aðföng – sjór, ferskvatn og rafmagn eru lykilþættir. Hægt er að flytja ferskan lax með skipi til Ameríku og Evrópu með lágu kolefnisfótspori. Hringrásarhagkerfi laxeldis raunhæfur kostur á Íslandi. Aukning er þó ekki sjálfbær nema með raunverulegum umhverfisvænum lausnum. Öllum ytri áhættuþáttum er stjórnað með landeldi – og framboði líka. Hraunsíun sjávar tryggir gott umhverfi laust við sníkjudýr og aðskotahluti. Landeldi tryggir jafnt hitastig, yfirsýn og jafnvægi eldisumhverfis fyrir velferð laxa. Allur úrgangur verður endurunninn í áburð – með sk. “Visthæfingu landeldis”. Landeldi áætlar allt að 33.000 tonna landeldi á komandi árum.
Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna (SFG) ræddi þróun og stöðu íslenskrar grænmetisframleiðslu með möguleikum á útflutningi. Áhersla íslenskra garðyrkjubænda er á meiri gæði en hjá innfluttu grænmeti því innlendur tilkostnaður verður alltaf hærri en hjá erlendum keppinautum. Íslensk grænmeti stendur sig vel í samkeppni og rými fyrir aukna framleiðslu að vissu marki. SFG hefur hafið útflutning á grænmeti í smáum stíl til Danmerkur, Færeyja og Grænlands og möguleikar eru á aukningu a.m.k. í núverandi orkukreppu í Evrópu. Spurningin er hins vegar um afkastagetu íslenskrar ylræktar til útflutnings þar sem mikil eftirspurn er eftir þessum vörum innanlands.
Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu, stýrði síðan pallborðsumræðum. Þar tóku þátt Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands, Sigurður H. Markússon, forstöðumaður Nýsköpunar Landsvirkjun og Marta Hermannsdóttir sem sér um sjálfbærnimál og áhættustýringu hjá Eyrir Venture Management. Þátttakendur ræddu margt en voru sammála um að tækifærin væru mjög mikil og raun þyrfti bara ákvörðun um að leggja af stað og greiða götu matvælaframleiðslu sem mest, ekki síst með útflutning í huga. Grænum fjárfestum fer fjölgandi og gera ekki endilega minni kröfur til arðsemi því með réttum aðferðum og skalanleika má ná mjög viðunandi arðsemi í íslenskri matvælaframleiðslu.
Að lokum þakkaði Sveinn öllum þátttakendum í ráðstefnunni fyrir komuna og öllum fyrirlesurum, pallborði og fundarstjóra fyrir fagleg og skemmtileg innlegg í ráðstefnuna.