Nýverið skrifuðu bakhjarlar Orkídeu, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Landsvirkjun, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóli Íslands undir nýjar samstarfssamning sem tryggir stuðning þessara öflugu bakhjarla við Orkídeu næstu þrjú árin eða til ársloka 2027. Það er mikið gleðiefni að fá halda áfram með kröftugt starf Orkídeu á mikilvægu sviði hringrásarlausna, nýsköpunar, orkuskipta og loftslagsmála. Við, starfsfólk Orkídeu, höldum því ótrauð áfram í okkar gefandi störfum og þökkum traustið!
Þess má geta að á starfstíma Orkídeu, sem nálgast fjögur ár núna í desember, höfum við náð að tryggja, með styrksamningum, rúmlega einn milljarð króna inn á Suðurland. Sumt hefur verið greitt, annað skilar sér á næstu árum.
Við erum rífandi stolt og þakklát!
Í frétt frá Umhverfisráðuneytinu og öðrum bakhjörlum segir:
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landsvirkjun og Landbúnaðarháskóli Íslands undirrituðu nýlega samning um áframhaldandi stuðning við Orkídeu, samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi. Samningurinn tekur til næstu þriggja ára, eða til ársloka 2027. Samstarf þessara bakhjarla Orkídeu hefur staðið yfir síðan um mitt ár 2020.
Orkídea hefur náð framúrskarandi árangri í sókn í Evrópustyrki með verkefnunum Terraforming LIFE og Value4Farm, auk árangurs í sókn í innlenda samkeppnissjóði með ýmsum fyrirtækjum og frumkvöðlum á Suðurlandi. Heildarfjárhæð styrkja, sem Orkídea og samstarfaðilar hafa aflað úr samkeppnissjóðum á síðustu fjórum árum, nemur um einum milljarði króna. Starfsmenn Orkídeu eru nú þrír talsins, en með þeim fjölmörgu verkefnum og styrkumsóknum sem ýmist eru í undirbúningi eða bíða afgreiðslu hjá ESB, er útlit fjölgun starfsfólks.
Suðurland er matarkista Íslands með öflugan landbúnað, garðyrkju, sjávarútveg og aðra fæðuframleiðslu sem veitir fjölmörg tækifæri til sóknar í aukna verðmætasköpun og fjárfestingar í gegnum samstarfsverkefni á borð við Orkídeu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Við höfum lagt á það áherslu á þessu kjörtímabili að styrkja og styðja við nýsköpunarstarfsemi um land allt. Það er því gleðiefni að geta endurnýjað samninginn við Orkídeu, sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í sókn í Evrópustyrki sem og náð góðum árangri hjá innlendum samkeppnissjóðum. Sameiginlegt átak og stuðningur öflugra aðila skiptir sköpum svo vel takist til og það er ánægjulegt að ráðuneytið geti verið slíkur bakhjarl.“
Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri sviðs viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun:
„Orkídea hefur þegar skilað mikilvægum árangri í að ná saman teymum, sækja styrki og styðja framþróun nýsköpunarverkefna á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis sem geta haft mikil áhrif á hvernig Suðurland og Íslendingar almennt hátta framleiðslu sinni og verðmætasköpun til framtíðar. Landsvirkjun telur tækifæri að byggja áfram á þessum góða árangri og er stolt af að styðja og taka þátt í þessu samstarfi ásamt öflugu starfsfólki, nærsamfélagi fyrirtækisins og öðrum bakhjörlum sem vilja sækja árangur og sjálfbæra atvinnustarfsemi samfélagi okkar öllu til heilla. Það er okkur því mikið ánægjuefni að samkomulag hafi náðst um áframhald starfsemi Orkídeu næstu þrjú árin.“
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS:
„Orkídea hefur verið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands síðustu ár og hefur reynst afar árangursríkt verkefni fyrir sunnlenskt samfélag. Orkídea hefur sótt um, í samvinnu við sunnlensk fyrirtæki, í innlenda og erlenda sjóði og styrkir fengist sem hafa verulega aukið fjármagn til nýsköpunarverkefna á Suðurlandi. Tilgangur Orkídeu er að stuðla að þróun orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi. Orkídea hefur greint og greitt leiðir nýsköpunartækifæra á Suðurlandi. Góður árangur hefur náðst með tilurð Orkídeu og við hlökkum mjög til áframhaldandi góðs samstarfs.“
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands:
„Orkídea er öflugur samstarfsvettvangur á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi sem Landbúnaðarháskóli Íslands er stoltur stofnaðili að. Samstarfsvettvangurinn hefur þegar skilað fjölda árangursríkra umsókna í innlenda og erlenda sjóði og Landbúnaðarháskóli Íslands sér mikil tækifæri í auknu samstarfi við hagaðila á svæðinu á sviði matvælaframleiðslu og líftækni. Sóknartækifæri til framtíðar eru í aukinni nýsköpun og rannsóknum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu þar sem fræðasamfélagið og framleiðendur geta tekið höndum saman til sóknar fyrir íslenskt samfélag.“